Innlent

Segja óljóst hvort fundurinn hafi staðist sveitarstjórnarlög

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekki eru allir á eitt sáttir með boðun bæjarstjórnarfundarins í Hafnarfirði í dag.
Ekki eru allir á eitt sáttir með boðun bæjarstjórnarfundarins í Hafnarfirði í dag. Vísir/daníel
Minnihluti Samfylkingar og Vinstri grænna í Hafnarfirði fordæma það sem hann kallar „þau ólýðræðislegu vinnubrögð sem fulltrúar Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafa viðhaft í kringum undirbúning og boðun fundarins,“ í tilkynningu nú í hádeginu.

Vísar minnihlutinn þar til aukafundar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar sem fram fór í morgun þar sem ræddar voru breytingar á stjórnskipulagi bæjarins.   Formlegt fundarboð var sent út síðastliðið föstudagskvöld en bæjarstjórnin fór í tveggja vikna sumarfrí síðastliðinn miðvikudag.

„Óljóst er hvort boðunin stenst ákvæði sveitarstjórnarlaga en hingað til hafa þau ekki verið túlkuð með þeim hætti sem meirihlutinn í Hafnarfirði hefur nú gert og um leið takmarkað möguleika kjörinna fulltrúa til að sinna lögbundnu hlutverki sínu,“ segir minnihlutinn og bætir við að hann muni fara fram á að innanríkisráðuneytið úrskurði um lögmæti fundarins.

„Teljum við að tillögur að grundvallarbreytingum á stjórnkerfi bæjarins eigi að fá eðlilega og lýðræðislega málsmeðferð áður en bæjarstjórn tekur um þær endanlega ákvörðun. Tillögur meirihlutans hafa hins vegar enga umfjöllun fengið í nefndarkerfi sveitarfélagins og engan opinbera kynningu hlotið. Við lögðum því til að þeim yrði vísað til eðlilegrar og lýðræðislegrar málsmeðferðar í bæjarráði og forsetanefnd, sem samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins hefur það verkefni með höndum að undirbúa og leggja fram tillögur um stjórnkerfisbreytingar. Þeirri tillögu hafnaði meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks.“


Tengdar fréttir

Uppsagnir á aukafundi bæjarstjórnar

Segja á upp fólki og bæjarstjóri mótar reglur um samskipti bæjarfulltrúa við starfsmenn bæjarins samkvæmt tillögum meirihluta bæjarstjórnar. Bæjarfulltrúi VG telur þetta "geggjuð vinnubrögð“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×