Erlent

Segja May ekki hafa hótað ESB

Samúel Karl Ólason skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Vísir/AFP
Bréf Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, til Donald Tusk, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, innihélt ekki hótanir, eins og gagnrýnendur á breska þinginu og í Brussel hafa haldið fram. Þetta segir David Davis, ráðherra ESB-úrsagnar, í ríkisstjórn May

Sendiherra Bretlands gagnvart ESB afhenti Tusk bréf í gær þar sem tveggja ára úrsagnarferli Breta úr sambandinu var formlega hrint af stað. Þar varaði May við því að ef samkomulag næðist ekki á tveimur árum myndi það veikja samstarf Bretlands og ESB gegn glæpum og hryðjuverkum.

Það hefur verið túlkað af mörgum á þann veg að May væri að fara fram á góðan viðskiptasamning, ellegar myndi hún draga Bretland úr öryggissamstarfi Evrópu.

Davis segir hins vegar að það hafi ekki verið meiningin. Hann hefur mætt í ýmis viðtöl í gær og í morgun þar sem hann segir enga hótun hafa verið í bréfinu. Innanríkisráðherra Bretlands, Amber Rudd, hefur einnig sagt að viðræður um öryggi og viðskipti verði aðskildar. Hins vegar væri ljóst að það þyrfti að endursemja um öryggissamstarf, þar sem það er innifalið í aðild að Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×