Erlent

Segja manninn hafa reynt að ná byssu lögreglumanns

Samúel Karl Ólason skrifar
Sex lögreglumenn tóku þátt í átökunum.
Sex lögreglumenn tóku þátt í átökunum.
Yfirvöld lögreglunnar í Los Angeles í Bandaríkjunum segja að heimilislaus maður sem að þrír lögreglumenn skutu til bana, hafi reynt að ná byssunni af einum þeirra. Myndband af atvikinu hefur farið víða í dag, en lögreglan segist ætla að nota það til rannsóknar málsins. Þá var minnst einn af lögregluþjónunum með myndavél á vesti sínu.

Atvikið átti sér stað á svæði þar sem fjöldi heimilislausra heldur til og kallast Skid Row.

AP fréttaveitan hefur eftir talsmanni lögreglunnar að lögregluþjónarnir hafi þurft að skjóta manninn þar sem að rafbyssa hafi ekki dugað til að stöðva hann. Hann hafi reynt að ná byssunni af einum þeirra, en í myndbandinu má heyra þá kalla á manninn: „Slepptu byssunni.“

„Myndbandið er óhugnanlegt,“ sagði Andrew Smith. „Það er alltaf óhugnanlegt þegar einhver lætur lífið. Þetta er harmleikur.“

Lögregluþjónarnir komu á vettvang til að rannsaka tilkynningu um rán samkvæmt lögreglunni. Sjá má sex lögreglumenn í átökum við manninn sem slær til þeirra. Tveir lögreglumenn víkja frá til að handtaka konu sem stóð þar nærri og hafði tekið upp kylfu sem lögreglumaður hafði misst.

Á vef Los Angeles Times, er haft eftir vitnum að maðurinn hafi verið kallaður „Africa“, en lögreglan hefur ekki sagt frá nafni hans. Hann er sagður hafa haldið til á Skid Row í fjóra til fimm mánuði. Áður hafði hann verið að geðdeild um langt skeið.

Annað vitni sem rætt var við sagði Africa hafa átt í rifrildi við annan mann í tjaldi sínu. Hann neitaði beiðni lögreglumanna um að koma út úr tjaldi sínu, en þá segir vitnið að lögreglumennirnir hafi skotið hann með rafbyssu og dregið úr tjaldinu.

Maður að nafni Booker T. Washington, sagði blaðamönnum Los Angeles Times, að lögregluþjónar hefðu ítrekað beðið Africa um að fjarlæga tjald sitt. Samkvæmt reglum borgarinnar má fólk sofa í tjöldum á svæðinu, en það verður að fjarlæga tjöldin á daginn.

„Hann var skotinn vegna tjalds,“ sagði Washington.

Í maí í fyrra lét heimilislaus maður lífið þegar hann féll af húsþaki eftir að lögreglumenn skutu hann með rafbyssu. Það mál er enn í rannsókn.


Tengdar fréttir

Skutu heimilislausan mann til bana

Myndband fer nú eins og eldur um sinu í netheimum en á því sést þegar lögreglumenn í Los Angeles í Bandaríkjunum skjóta heimilislausan mann til bana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×