Erlent

Segja loftárásir á Aleppo vera stríðsglæpi

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 115 borgara eru sagðir hafa fallið í árásum stjórnarhersins og Rússa á borgina frá því á fimmtudaginn.
Minnst 115 borgara eru sagðir hafa fallið í árásum stjórnarhersins og Rússa á borgina frá því á fimmtudaginn. Vísir/AFP
Fastafulltrúi Frakklands hjá Sameinuðu þjóðunum segir að árásir á Aleppo í Sýrlandi séu stríðsglæpur. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundar nú um árásirnar en fjöldi almennra borgara hafa látið lífið um helgina og um tvær milljónir hafa ekki aðgang að hreinu vatni.

„Það er verið að fremja stríðsglæpi í Aleppo,“ sagði Francois Delattre. „Það verður að refsa fyrir þá og refsileysi er ekki í boði í Sýrlandi.“

Fastafulltrúi Breta sló á svipaða strengi og sagði að íkveikjusprengjur sem væri verið að varpa á borgina greini ekki á milli borgara og vopnaðra manna. Þá væri notkun þeirra brot á alþjóðalögum.

Bretar, Frakkar og Bandaríkin beita nú Rússa miklum þrýstingi svo þeir fái ríkisstjórn Sýrlands til að draga úr árásum á borgina.

Sjá einnig: Blöskrar vegna ofbeldisins í Aleppo

Aðgerðarsamtökin Syrian Observatory for Human Rights segja minnst 115 borgara hafa fallið í árásum stjórnarhersins og Rússa á borgina frá því á fimmtudaginn.

Árásin á bílalestina mögulega stríðsglæpur

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hefur sagt að Rússar hafi mögulega framið stríðsglæp með loftárásum á bílalest sem bar hjálpargögn í grennd við Aleppo. Hann sagði blaðamanni BBC að rannsaka þyrfti hvort Rússar hafi vísvitandi gert árásir á almenna borgara.

Minnst tuttugu manns létu lífið í árásunum og 18 vörubílar og vöruskemma gereyðilögðust. Rússar þvertaka fyrir að hafa gert loftárásir á bílalestina. Fyrst sögðust þeir hafa fundið vísbendingar um að kveikt hefði verið í henni, síðan ásökuðu þeir uppreisnarmenn um að hafa gert sprengjuvörpuárás á bílalestina og einnig hafa þeir sakað Bandaríkin um að hafa varpað sprengjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×