Innlent

Segja Landvernd stuðla að utanvegaakstri á hálendinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Kjalvegi.
Frá Kjalvegi. Vísir/GVA
Fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja við Kjalveg segja Landvernd beinlínis stuðla að utanvegaakstri á hálendinu. Þeir undrast „harkalega framgöngu Landverndar“ sem kært hefur Skipulagsstofnun vegna verkefna Vegagerðarinnar varðandi lagfæringar á Kjalvegi.

Í tilkynningu frá ferðaþjónustufyrirtækjunum segir að málarekstur Landverndar sé afar undarlegur og hann muni líklega tefja fyrir nauðsynlegum lagfæringum. Þannig stuðli Landvernd beinlínis að utanvegaakstri á hálendinu.

„Landvernd í orði en ekki á borði,“ segir í tilkynningunni.

„Við viljum halda því til haga að það skýtur skökku við að samtök eins og Landvernd standi í vegi fyrir því að stoðvegir á hálendinu séu lagfærðir,“ segir Páll Gíslason, framkvæmdastjóri Hálendismiðstöðvar í Kerlingafjöllum, í samtali við fréttastofu.

Í tilkynningunni segir einnig að Vegagerðin hafi gripið til þess ráðs að nota hluta af fjárveitingum til viðhalds vegakerfisins til að laga Kjalveg í áföngum. Þannig hafi náðst að þoka veginum nokkra sentímetra upp fyrir umhverfi sitt á köflum.

Bláskógarbyggð hefur samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir um þriggja kílómetra langan kafla norðan Hvítár að Árbúðum. Ferðaþjónustufyrirtækin segja það vera viðhaldsverkefni en ekki nýja framkvæmd sem kalli á umhverfismat.

„Málarekstur Landverndar hefur sinn gang og líklega tefst viðhald á þessum tiltekna kafla á meðan. Vatnið rennur áfram um niðurgrafinn vegslóðann og vegfarendur freista þess að krækja hjá pollum og keldum, með akstri utan vegar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×