Innlent

Segja landlækni í flóknu hlutverki í stjórnsýslunni

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Landlæknir hefur endanlegt ákvörðunarvald um afhendingu sjúkraskráa til sjúklinga og aðstandenda.
Landlæknir hefur endanlegt ákvörðunarvald um afhendingu sjúkraskráa til sjúklinga og aðstandenda. vísir/anton brink/Pjetur
Breytingar á lögum um sjúkraskrár voru staðfestar á Alþingi í janúar þrátt fyrir að mat margra umsagnaraðila væri að breytingarnar geri fólki enn erfiðara að fá afrit af sjúkraskrám sínum og landlækni einvaldan í ákvörðunum um aðganginn.

Umsagnaraðilar gagnrýna meðal annars að nú þurfi einstaklingar sérstaklega að kæra synjun um afhendingu sjúkraskrár til Landlæknis. Einnig að í frumvarpinu sé yfir höfuð heimild til að neita einstaklingum um að sjá sínar eigin sjúkraskrár, með þeim rökum að

það sé ekki talið þjóna hagsmunum sjúklings að fá aðgang.

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, er í minnihluta velferðarnefndar sem fjallaði um breytingarnar á sínum tíma. Hún segir að ástæður sem hafi verið gefnar fyrir þessari heimild séu fyrst og fremst vegna geðsjúklinga.

„Þetta er gamaldags viðhorf. Það er einmitt betra fyrir sjúklinga sem glíma við geðrænan vanda að fá að sjá sjúkraskrá sína, það getur verið liður í því að átta sig á veikindum sínum. Ef læknar og hjúkrunarfræðingar skrifa eitthvað í sjúkraskrá sem sjúklingur má ekki sjá þá ætti það ekki að vera skrifað. Fólk verður að vanda sig hvernig upplýsingar eru settar fram svo þær verði ekki gildishlaðnar,“ segir Björt. 

Önnur veigamikil breyting á frumvarpinu er að ákvarðanir landlæknis um sjúkraskrárupplýsingar og -aðgang eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki lengur skotið til ráðherra. 

Björt, ásamt öðrum umsagnaraðilum, mælir á móti þessu fyrirkomulagi með þeim rökum að í málum sem þessum sé mikilvægt að hafa tvö kærustig ásamt því að landlæknir sé settur í einkennilega stöðu í íslenskri stjórnsýslu. 

Í ræðu, þar sem Björt kom áleiðis umsögn minnihlutans í velferðarnefnd, kemur fram að vegna eftirlitshlutverks Landlæknis með heilbrigðisstarfsemi og -starfsmönnum geti orðið hagsmunaárekstur. 

Björt sagði að sjúkraskrár geti sýnt fram á athafnir eða athafnaleysi heilbrigðisstarfsmanna sem hefðu að öllu jöfnu átt að leiða til aðgerða af hálfu embættisins en gerðu það ekki. Embætti landlæknis geti því verið í erfiðri stöðu við töku ákvarðana í málum er varða aðgang að sjúkraskrám og því sé ótækt að ekki verði hægt að kæra ákvarðanir landlæknis til velferðarráðuneytisins.

Fagaðilar um breytingarfrumvarpið

Formaður Félags lífeindafræðinga

„Landlæknir er orðinn einvaldur í þessum málum sem hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt.“

„Ég taldi að samkvæmt upplýsingalögum ætti ég rétt á því skilyrðislaust að sjá mínar eigin sjúkraskrár. Hvert er leyndarmálið gagnvart mér í mínum eigin veikindaskýrslum? … Að synja fólki um aðgang að sjúkraskrám er í sjálfu sér brot á lögum.“



Varaformaður Hjartaheilla


„Hér er um veigamikið frávik að ræða frá meginreglu stjórnsýsluréttar. … Hin almenna kæruheimild byggist á skiptingu stjórnsýslukerfisins í fleiri stjórnsýslustig þar sem æðri stjórnvöld hafa eftirlit með þeim stjórn­völdum sem lægra eru sett.“



Framkvæmdastjóri fjölskyldusviðs Mosfellsbæjar

„[Landlæknir] hefur eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Tengsl sem af því leiða geta leitt til hlutdrægni og því er ástæða til þess að draga í efa að embætti Landlæknis sé best til þess fallið að fara með úrskurðarvald í umræddum málum. Að mati undirritaðrar færi betur á því að óháðum úrskurðaraðila væri falið valdið líkt og á við um áfrýjun stjórnvaldsákvarðana í öðrum velferðarmálum.“



Framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins


„Með þessu er mikið vald framselt til Landlæknis og eftirlitsheimild ráðherra tekin út. Um ráðherra gilda lög um ráðherraábyrgð, pólitísk og lagaleg en slíka ábyrgð er ekki að finna hjá Landlækni.“



Formaður Læknafélags Íslands


„LÍ getur ekki fallist á að heppilegt sé að fella úr gildandi lögum um sjúkraskrá kæruheimildir sjúklinga til velferðarráðuneytis. LÍ telur það draga úr réttaröryggi sjúklinga að hafa einungis eitt kærustig í þessum málum. … þá séu völd embættis landlæknis varðandi sjúkraskrár orðin meiri en eðlilegt sé að eitt stjórnvald hafi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×