Erlent

Segja Kínverja leiksopp Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu. Vísir/EPA
yfirvöld Norður-Kóreu virðast vera reið nágrönnum sínum í norðri og helsta bandaríki, Kína. Kínverjar hafa stöðvað allan innflutning á kolum frá Norður-Kóreu vegna eldflaugatilrauna og kjarnorkuvopnaáætlunar einræðisríkis Kim Jong Un.

Opinber fréttaveita Norður-Kóreu, KCNA, nefnir Kína ekki á nafn en segir „nágrannaríki“ sitt vera leiksopp Bandaríkjanna og hafa gert lítið úr árangri Norður-Kóreu varðandi kjarnorkuvopnaáætlun ríkisins.

Til marks um yfirburði

Í grein sem ber heitið: „Kvikindsleg hegðun nágrannaríkis“ segir að Norður-Kórea hafi nýverið sýnt fram á gífurlega framþróun ríkisins og að alþjóðasamfélagið viðurkenni nú getu Norður-Kóreu til að gera kjarnorkuvopnaárásir.

Upplýsingar um síðasta tilraunaskot Norður-Kóreu.Vísir/GraphicNews
Þá séu fjölmiðlar heimsins sammála um að tilraunaskot þann 12. febrúar sé til marks um yfirburði Norður-Kóreu og að ómögulegt sé að greina eldflaugaskot ríkisins og að koma í veg fyrir þau.

Þá segir í greininni að nágrannaríki sem haldi því oft fram að þeir séu góðir grannar, hafi gert lítið úr mikilvægi tilraunaskotsins sem „kjarnorkutækni í byrjendaskrefum“. Þar að auki hafi nágrannarnir tekið þau „miskunarlausu skref“ að loka alfarið á viðskipti ríkjanna á milli þvert gegn alþjóðalögum og vísað er til reglugerða Sameinuðu þjóðanna.

Yfirvöld í Kína segjast ekki ætla að kaupa kol af Norður-Kóreu út þetta ár. Þetta var tilkynnt á laugardaginn, um viku eftir síðasta tilraunaskot Norður-Kóreu.

Ríkisstjórn Donald Trump, og hann sjálfur, hefur gagnrýnt Kína fyrir að aðhafast ekki nóg til að stöðva kjarnorkuvopnaáætlun Norður-Kóreu.



Barnalegar vonir

„Þetta ríki, sem segist vera stórveldi, er leiksoppi Bandaríkjanna og ver aðgerðir sínar með því að segja þær ekki eiga að hafa áhrif á lífsskilyrði íbúa Norður-Kóreu, heldur einungis hægja á kjarnorkuvopnaáætluninni,“ segir í greininni.

Því er haldið fram að Norður-Kórea hafi þróað kjarnorkuvopn á nokkrum árum, sem hefði tekið önnur ríki tugi ára og hefði lokið við smíði eldflauga fyrir vopnin á einungis sex mánuðum. Það sýni fram á mátt vopnaiðnaðarins í Norður-Kóreu.

„Það er alfarið barnalegt að detta í hug að Norður-Kórea muni ekki framleiða kjarnorkuvopn og langdrægnar eldflaugar til að bera þau á milli heimsálfa, vegna þess að nokkrar krónur vanti upp á.“

Greinarhöfundur heldur áfram og segir að kjarnorkuvopn gætu gert Norður-Kóreu kleift að tryggja heimsfrið og koma í veg fyrir árásir á ríkið. Þannig myndi Norður-Kórea vinna lokasigurinn yfir Bandaríkjunum.

Framþróun aldrei staðfest

Yfirvöld í Norður-Kóreu hafa sprengt fimm kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni á síðustu árum. Þá er því haldið fram að þeir búi yfir tækni til að minnka kjarnorkuvopn sín svo hægt sé að koma þeim fyrir í langdrægum eldlflaugum. Með þeim væri hægt að gera árás á Bandaríkin.

þetta hefur þó aldrei verið staðfest að sérfræðingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×