Erlent

Segja Ísraela seka um morð á ungbarni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þessi mynd af Ali Saad Dawabsha, átján mánaða palestínskum dreng, varð eftir í brunarústum húss á vesturbakkanum. Drengurinn lést í brunanum.
Þessi mynd af Ali Saad Dawabsha, átján mánaða palestínskum dreng, varð eftir í brunarústum húss á vesturbakkanum. Drengurinn lést í brunanum. nordicphotos/afp
„Þetta er bein afleiðing áratuga langrar refsileysisstefnu Ísraelsstjórnar gagnvart hryðjuverkum landtökumanna,“ segir í yfirlýsingu frelsissamtaka Palestínumanna, PLO, um árás á Vesturbakka Jórdanár.

Átján mánaða drengur lést aðfaranótt gærdagsins í árás á tvö heimili í bænum Duma á vesturbakkanum. Foreldrar hans og bróðir hlutu alvarlega áverka.

Talsmenn PLO segja ísraelska landtökumenn hafa kastað eldsprengjum á heimilið með þeim afleiðingum að í því kviknaði.

„Við komum að foreldrunum úti, skaðbrenndum, þau sögðu að sonur þeirra væri inni þannig að við náðum í hann. Þegar við komum út aftur sögðu þau að annar sonur þeirra væri líka inni en við gátum ekki bjargað honum, eldurinn stóð í vegi fyrir okkur,“ sagði Ibrahim Dawabsha, nágranni, við Reuters.

Slagorð á hebresku fundust krotuð á veggi hússins ásamt Davíðsstjörnu, merki Ísraels.

Meðal þess sem var krotað voru orðin „hefnd“ og „verðmiði“. Óljóst er hvað átt er við með orðinu hefnd en árásin minnir um margt á aðrar „verðmiðaárásir“ á svæðinu þar sem herskáir ísraelskir landtökumenn ráðast á heimili Palestínumanna á Vesturbakkanum.

Ísraelska lögreglan lét rífa tvær hálfbyggðar blokkir á Vesturbakkanum á miðvikudag við mikla reiði landtökumanna. Ríkisstjórn Netanyahus samanstendur af fimm flokkum og eru nokkrir þingmenn hennar hlynntir landtöku á Vesturbakkanum. Það er talin ástæða þess að Netanyahu heimilaði í kjölfar niðurrifsins byggingu þrjú hundruð heimila fyrir Ísraela á Vesturbakkanum.

Um 500.000 Ísraelar búa á Vesturbakkanum en Ísrael hertók svæðið árið 1967. Byggð Ísraelsmanna þar gengur gegn alþjóðalögum en ríkisstjórn Ísraels er ósammála.

„Þetta eru hryðjuverk í orðsins fyllstu merkingu. Ísraelsríki stendur gegn hryðjuverkum, sama hver fremur þau,“ sagði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, um árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×