Innlent

Segja ekkert saknæmt tiltekið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skátar í skrúðgöngu.
Skátar í skrúðgöngu. vísir/daníel
Stjórn Bandalags íslenskra skáta (BÍS) segir að samkvæmt bráðabirgðaskýrslu löggilts endurskoðanda um fjármál fyrrverandi framkvæmdastjóra, Hermanns Sigurðssonar, sé ekki um saknæmt athæfi að ræða.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að á fundi þar sem niðurstöður skýrslunnar voru kynntar hefði Hermann meðal annars verið sagður hafa notað kreditkort skáta í eigin þágu.

Rannsókn stendur enn yfir og á henni að ljúka fyrir skátaþing þann 11. mars.

„Þeirri vinnu er ekki lokið, en samkvæmt bráðabirgðaskýrslu löggilts endurskoðanda liggur fyrir að ekkert bendi til þess að um saknæmt athæfi sé að ræða hvað varðar fjársýslu fyrrverandi framkvæmdastjóra,“ segir í yfirlýsingu stjórnar BÍS.

Þá segir einnig að endurskoðandinn hafi ítrekað á fundinum að á grundvelli gagna sem lægju fyrir væri ekki um saknæmt athæfi að ræða.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram að Heiður Dögg Sigmarsdóttir, formaður upplýsingaráðs BÍS, hafi ekki viljað tjá sig. Hið rétta er að hún vildi koma því á framfæri að ekkert saknæmt væri tiltekið í skýrslunni, hún vildi hins vegar ekki tjá sig um ráðningarsamning Hermanns. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Var sagður hafa notað kreditkort skáta í eigin þágu

Í niðurstöðu bráðabirgðaskýrslu löggilts endurskoðanda Bandalags íslenskra skáta (BÍS) um rannsókn á fjármálum fyrrverandi framkvæmdastjóra BÍS, Hermanns Sigurðssonar, segir að hann hafi meðal annars notað kreditkort skáta í eigin þágu og keypt með því skíðaboga á bíl sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×