Innlent

Segja borgina fara af stað með niðurskurðarhnífinn án samráðs

Stefán Rafn Sveinbjörnsson skrifar
Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson.
„Nú hefur meirihlutinn farið mikinn í fjölmiðlum um að þau ætli ekki að skerða grunnþjónustuna, og við bara spyrjum, er þetta ekki grunnþjónusta?“ spyr Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina gagnrýndu harðlega skerðingu borgarinnar á þjónustu við eldri borgara á borgarstjórnarfundi í gær.

Meðal tilefna eru fréttir um að ekki verði lengur veittur heitur matur í félagsmiðstöð eldri borgara við Eirborgir um helgar.

„Það hafa komið fram miklar efasemdir um að þetta sé að skila þeim sparnaði sem borgin reiknar sér,“ segir Áslaug. 

„Það hefur til dæmis komið fram í greiningum að ellefu prósent þeirra sem fá aðsendan mat þurfa aðstoð við að opna matarbakkana. Þetta kallar bara á meira innlit og fylgd. Þetta kostar líka.“

Áslaug Friðriksdóttir
Áslaug segir að ætt sé af stað með niðurskurðarhnífinn án þess að haft sé samráð. Hún nefnir til dæmis að velferðarráð hafi í bókun sinni frá því í desember kallað eftir yfirliti yfir félagsþjónustu aldraðra, alla starfsemi og kostnað en það hafi verið gert allt of seint. 

„Við höfum bókað síðustu sex ár á nánast hverjum einasta fundi velferðarráðs að verið væri að ógna velferð aldraðra og fatlaðra vegna þess að illa sé farið með fé annars staðar. Og nú líður manni eins og þær hrakspár séu að rætast,“ segir hún.

Áslaug segir að á grundvelli yfirlitsins mætti greina hvernig hægt væri að bæta þjónustu við aldraða á sem hagkvæmastan hátt. Hún nefnir að nefnir að ein hugmynd væri að leyfa öðrum aðilum að sjá um hluta þjónustunnar.

„Ég skil vel vonbrigði eldra fólks sem hefur sótt þarna mat um helgar vegna þess að þetta er breyting á þjónustu sem þau telja að þeim hafi verið lofað,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. 

„Það loforð virðist hafa komið frá Eir sem rekur leiguíbúðirnar en hugsun borgarinnar var ekki sú að þessi félagsmiðstöð ætti að vera frábrugðin félagsmiðstöðvum annars staðar í borginni sem hvergi eru með mat um helgar,“ segir hann en umrædd félagsmiðstöð er önnur tveggja félagsmiðstöðva af sautján sem hafa veitt slíka þjónustu.

Hann segir að borgin, Eir og íbúar í Eirborgum eigi nú í samtali til að finna flöt þannig að íbúarnir séu sáttari á eftir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×