Innlent

Segja ávísanir lyfja á ábyrgð lækna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Vilhelm
Lyfjastofnun segir ávísanir lyfseðilsskyldra lyfja vera að öllu leyti á ábyrgð þess læknis sem gefur ávísunina út. Lyfjaávísun byggi á faglegu mati læknis og „þó svo að óskir sjúklings um að ávísað sé tiltekinni pakkningastærð geti komið inn í framangreint mat læknis, þá geta slíkar óskir aldrei ráðið því hvaða pakkningastærð verður fyrir valinu. Sérstaklega á þetta við um lyf sem valdið geta ávana og fíkn.“

Tilefni tilkynningar er frétt í Fréttablaðinu í dag þar sem haft var eftir verkefnisstjóra lyfjamála hjá Embætti Landlæknis að læknar lendi oft í stappi við fólk þar sem hagkvæmara sé fyrir það að kaupa stærri skammta en minni. Jafnvel af lyfjum sem séu ávanabindandi.

Sjá einnig: Oft ódýrara að kaupa stærri skammt ávanabindandi lyfja.

Í tilkynningunni frá Lyfjastofnun segir að ákvörðun lyfjaverðs sé tekin með hliðsjón af lyfjaverði sambærilegra pakkninga á Norðurlöndum. Almennt séu litlar pakkningar óhagkvæmari í framleiðslun í framleiðslu og eigi það við flest lyf. 

„Ávísun á lyfseðilsskyld lyf, og ekki hvað síst eftirritunaskyld lyf, sem eru flest ávana- og fíknilyf, hlýtur að taka mið af þörf sjúklings hverju sinni fremur en töfluverði og ávísuninni stýrir læknirinn. Að gefnu tilefni skal á það bent að Embætti landlæknis á fulltrúa í lyfjagreiðslunefnd, en þar að auki eiga Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar Íslands og fjármálaraðuneytið fulltrúa í nefndinni.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×