Körfubolti

Segja að búið sé að kæra Rose fyrir nauðgun

Derrick Rose.
Derrick Rose. vísir/getty
Bandarískir slúðurmiðlar greina frá því í dag að búið sé að kæra NBA-stjörnuna Derrick Rose og vini hans fyrir nauðgun.

Það er TMZ.com sem birtir þessa frétt í dag. Í fréttinni kemur fram að kærandinn haldi því fram að hafa verið í sambandi við Rose á árinum 2001 til 2013.

Á þeim tíma á Rose að hafa farið fram á að hún tæki þátt í alls konar kynlífsathöfnum. Meðal annars með vinum hans. Hún segist hafa neitað öllum þeim bónum.

Í kærunni segir hún að Rose og vinir hans hafi byrlað henni ólyfjan á heimili Rose í Los Angeles. Síðan hafi þeir reynt að nauðga henni en hún hafi sloppið.

Síðar um kvöldið hafi þeir birst heima hjá henni og klárað ætlunarverk sitt.

Hún segist hafa sleppt því að kæra í tvö ár þar sem hún skammaðist sín. Kærandinn óttaðist einnig viðbrögð íhaldssamrar fjölskyldu hennar.

Lögfræðingur Rose segir að kæran sé tómt kjaftæði og í raun fáranleg. Stúlkan sé eingöngu á höttunum eftir peningum Rose. Lögfræðingurinn sé sá þriðji sem hún ræður til þess að fara í mál við Rose.

Rose er ein af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar. Hann spilar með Chicago Bulls og var valinn besti leikmaður NBA-deildarinnar árið 2011.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×