Innlent

Segir Vísi brjóta á fólkinu sem ekki vill til Grindavíkur

Gissur Sigurðsson skrifar
Mynd/(Þorsteinn Gunnarsson
Verkalýðsfélagið á Húsavík telur að Vísir í Grindavík ætli að varpa uppsagnarfresti þeirra starfsmanna, sem ekki vilja flytja til Grindavíkur, yfir á ríkissjóð með ólöglegum hætti.

Að sögn Aðalsteins Baldurssonar, formanns Verkalýðsfélagsins á Húsavík, vilja Vísismenn að fólkið, sem eftir verður á Húsavík, fari þegar á atvinnuleysisbætur án þess að vera áfram í ráðningarsamningi við Vísi. Fólkið sem flytur til Grindavíkur fer hinsvegar líka á atvinnuleysisbætur, en verður áfram á ráðningasamningi og hefur störf í Grindavík í haust.

Með því að slíta ráðningarsamningnum sé í raun verið að segja fólkinu upp að mati Aðalsteins. Því beri að greiða fólkinu laun í einn til fjóra mánuði, eftir lengd uppsagnarfrestsins. Málið stefni fyrir dómstóla, ef Vísir haldi þessu til streitu, að sögn Aðalsteins.

Með börnum munu hátt í 50 manns flytja frá Húsavík til Grindavíkur og segir Róbert Ragnarsson bæjarstjóri að leikskólapláss og pláss í öðrum skólum séu til staðar í Grindavík.

Þá sé verulega að rætast úr leigumarkaðnum í bænum, ekki síst þar sem verktaki hefur nú keypt „stóru blokkina“ svonefndu, en með tilkomu hennar munu 23 íbúðir koma til viðbótar inn á þann markað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×