Erlent

Segir vígamönnum ISIS til syndanna

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Leiðtogi "Íslamska ríkisins“, sem nú er sagður liggja alvarlega sár eftir loftárás í síðasta mánuði.
Leiðtogi "Íslamska ríkisins“, sem nú er sagður liggja alvarlega sár eftir loftárás í síðasta mánuði. nordicphotos/AFP
Þýski blaðamaðurinn Jürgen Todenhöfer, sem kominn er yfir sjötugt, dvaldi á síðasta ári hjá vígamönnum „Íslamska ríkisins“ í Sýrlandi og Írak, samtals í tíu daga og varð fyrsti vestræni blaðamaðurinn sem slapp þaðan heill á húfi.

Um helgina birti hann á vefsíðu sinni opið bréf til Abu Bakr al Bagdadí, leiðtoga samtakanna, en sá er nú sagður alvarlega særður eftir loftárás í síðasta mánuði.

Todenhöfer þakkar Bagdadí kærlega fyrir að hafa tekið vel á móti sér og staðið í einu og öllu við loforð um að sér yrði ekki gert mein. Niðurstaða sín eftir þessa tíu daga heimsókn sé síðan sú að flestar gerðir Íslamska ríkisins séu andstæðar íslamstrú: „Þú ættir að gefa ríki þínu nýtt nafn og kalla það And-íslamska ríkið,“ segir Todenhöfer. Hann segir síðan að Bagdadí sjálfur sé alger andstæða Múhameðs spámanns: „Múhameð var miskunnsamur, þér eruð miskunnarlaus. Múhameð var framsýnn byltingarmaður, þér eruð afturhaldssamur fortíðarsinni.“

Todenhöfer vitnar óspart í Kóraninn, sem hann segist hafa lesið oft sér til ánægju þrátt fyrir að vera kristinnar trúar.

Hann segir að Bagdadí brjóti nánast öll boðorð Kóransins, ekki síst þetta: „Ef maður drepur mann, þá er það eins og hann hafi drepið allt mannkyn. En ef hann bjargar mannslífi, þá er eins og hann hafi bjargað öllu mannkyninu,“ og beinir síðan máli sínu beint að Bagdadí: „Þú hefur aldrei bjargað mannslífi. Alltaf bara drepið án allrar miskunnar. Þú skaðar þar með allan hinn íslamska heim. Þú ert núna versti óvinur íslams.“

Todenhöfer hefur oft ferðast til átakasvæða í Mið-Austurlöndum og skrifað um það nokkrar bækur.

Í gær birti Todenhöfer síðan áskorun til Vesturlandabúa, sem haldið hafa til Írans eða Íraks að berjast með „Íslamska ríkinu“.

„Enginn gleðst meira yfir ódæðum ykkar en óvinir íslams. Stundum gæti maður haldið að þið væruð uppfinning þeirra,“ segir í áskoruninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×