Innlent

Segir verkefnið spennandi

Gunnar Birgisson.
Gunnar Birgisson. Vísir/Vilhelm
Gunnar tekur við af Sigurði Val Ásbjarnarsyni sem lætur af störfum að eigin ósk eftir tæplega fimm ára bæjarstjórasetu. Fram kom á Vísi í gær að starfslokin væru í fullri sátt við bæjarstjórn og af persónulegum ástæðum.

Gunnar var sem kunnugt er formaður bæjarráðs Kópavogs frá 1990 til 2005 og oddviti Sjálfstæðismanna í bænum. Hann tók þá við embætti bæjarstjóra árið 2005 og gegndi því til ársins 2009. Gunnar sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, var þingmaður í Reykjaneskjördæmi frá árinu 1999 til 2003 og síðar Suðvesturkjördæmis til ársins 2006.

Í fjallabyggð búa um tvö þúsund manns en sveitarfélagið varð til við sameiningu Siglufjarðar og Ólafsfjarðar fyrir tæpum áratug. Gunnar sem gegnir ekki lengur trúnaðarstörfum fyrir Kópavogsbæ mun taka við strax næstu mánaðarmót og segir tilboðið hafa komið brátt að. Gunnar segir stöðu sveitarfélagsins sterka og nefnir sérstaklega umsvif athafnamannsins Róberts Guðfinnssonar.

„Mér finnst þetta spennandi verkefni. Þetta er sveitarfélag sem er að snúa vörn í sókn og það hafa verið vandamál hjá sveitarfélögum á landsbyggðinni. Þau hafa átt í vök að verjast. Nú hafa einkaaðilar þarna, eins og Róbert Guðfinnsson, fjárfest mikið í þessu sveitarfélagi þannig að þetta er mjög spennandi verkefni. Það er alltaf gaman að koma að hlutum þegar verið er að byggja upp.“

Gunnar segir tilkomu Héðinsfjarðarganganna meginástæðuna fyrir því að hægt hafi verið að byggja upp í sveitarfélaginu. Hann var reyndar mótfalli gerð ganganna sem þingmaður á sínum tíma og sagði í umræðum á Alþingi 2005, framkvæmdina eina vitlausustu framkvæmd sem hann hefði heyrt um í langan tíma. Hann segir í dag göngin vera lífæð Fjallabyggðar.

„Þá var ég þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi og vildi fá peningana í vegaframkvæmdir hér. Á þeim tíma taldi ég þetta vera rosalega mikla fjármuni sem var varið í þetta. En þetta sveitarfélag dafnaði ekki svona vel í dag ef þessi göng væru ekki. Það er alveg ljóst,“ segir Birgir. „Þessi sveitarfélög hefðu nánast dáið hefðu þau ekki komið til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×