Innlent

Segir umhverfismat aldrei hafa farið fram

Svavar Hávarðsson skrifar
Hagalón Hvammsvirkjunar yrði fyrir ofan stíflu stutt fyrir ofan Viðey í Þjórsá en eyjan var friðlýst árið 2011.
Hagalón Hvammsvirkjunar yrði fyrir ofan stíflu stutt fyrir ofan Viðey í Þjórsá en eyjan var friðlýst árið 2011. Fréttablaðið/vilhelm
Umhverfismat fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá, samkvæmt núgildandi lögum, hefur aldrei farið fram. Þetta segir Orri Vigfússon, formaður NASF, í bréfi til Skipulagsstofnunar. Því er það mikið virðingar­leysi við náttúruna að hans mati að Hvammsvirkjun hafi verið færð í nýtingarflokk rammaáætlunar.

Rök Orra eru að árið 2003 var gert umhverfismat fyrir svokallaða Núpsvirkjun sem síðan hefur verið gjörbreytt – en matið hefði getað nýst í sameiginlegt umhverfismat á þeim þremur virkjunarframkvæmdum í neðri hluta Þjórsár sem nú eru fyrirhugaðar – en auk Hvammsvirkjunar eru Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun enn í biðflokki og til meðferðar hjá verkefnisstjórn rammaáætlunar.

Eins og kunnugt er var Hvammsvirkjun færð úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar með samþykkt Alþingis í júlí 2015 eftir flýtimeðferð verkefnisstjórnarinnar. Þetta segir Orri ótækt enda hafi forsendur breyst, lífríki árinnar hafi tekið stakkaskiptum, laxgengd stóraukist og miklar breytingar hafi orðið á atvinnuháttum í ljósi stóraukins straums ferðamanna til landsins. Sé ætlunin að halda Hvammsvirkjun til streitu þarf nýtt umhverfismat, er niðurstaða Orra í ítarlegri samantekt um málavöxtu.

Afstaða Landsvirkjunar er að mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar hafi legið fyrir árið 2003, en síðan þá hafa umtalsverðar rannsóknir farið fram á svæðinu. Hins vegar hefur verið óskað eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort endurtaka þurfi matið frá 2003, enda heldur umhverfismat vegna fyrirhugaðs virkjunarkosts að öllu jöfnu gildi sínu í 10 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×