Innlent

Segir tólf ára dreng hafa ráðist á pólskan son sinn vegna upprunans

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Davíð Sebastian Ert missti meðvitund við höfuðhöggið.
Davíð Sebastian Ert missti meðvitund við höfuðhöggið. Mynd/Sylwia Bjarnadóttir
„Ég varð bara í sannleika sagt alveg brjáluð og fór bara að gráta þegar ég sá hvernig hann leit út eftir þetta,“ segir Sylwia Bjarnadóttir, móðir hins tólf ára gamla Davíðs Sebastians Ert sem ráðist var á í Breiðholti í dag.

Að sögn sjónarvotta hafði árásarmaðurinn, sem er jafnaldri Davíðs, veist að honum vegna pólsks uppruna hans en í aðdraganda áfloganna hafði hann öskrað á Davíð hin ýmsu fúkyrði. „Hann kallar á hann „helvítis pólverji“ og annað í þeim dúr sem honum þótti ekkert gaman að heyra,“ segir Sylwía. Davíð hafi því ákveðið að svara á móti en áður en hann vissi af lá hann meðvitundarlaus á stéttinni eftir höfuðhögg. 

Tvær vinkonur Davíðs höfðu samband við lögregluna sem var skjót á vettvang og kallaði hún til sjúkraflutningamanna sem færðu Davíð á Landspítalann þar sem hann varði bróðurparti dagsins.

Að sögn sjónarvotta brást móðir árásarmannsins illa við þegar hún sá hvernig í pottinn var búið. „Í stað þess að hjálpa syni mínum sem hún sér liggjandi í jörðinni á þá ákveður hún frekar að húðskamma vini Davíðs sem voru þarna að koma honum til aðstoðar og talaði alltaf um hann sem „litla Pólverjann,“ segir Sylwía. „Það er auðvitað ekki í lagi“

 

Sylwía hefur búið hér á landi í um átján ár og segir hún sig, blessunarlega, ekki  hafa orðið fyrir barðinu á slíku aðkasti síðan hún flutti hingað til lands.

Hún vonar að frásögnin af raunum sonar hennar verði til þess að einhverjir foreldrar muni tala við börnin sín um aðstæður barna af erlendum uppruna. Að þau reyni að hjálpa þeim að aðlagast í stað þess að einangra þau og gera að þeim gys „Það getur oft verið erfitt fyrir útlensk börn að koma frá öðru landi og þurfa að byrja í nýjum skóla og læra kannski nýtt tungumál. Þá er ekki gott að önnur börn séu að hlæja að þér fyrir að kunna ekki tungumálið nógu vel eða skilja ekki eitthvað og kalla eitthvað ljótt að þér, það er ekki gaman,“ segir Sylwía.  

Ekki náðist í lögregluna í Breiðholti vegna málsins.


Tengdar fréttir

Varð að vísa dreng í 5. flokki útaf vegna kynþáttaníðs

"Það sem átti sér stað var að brotið var á leikmanni Fjölnis, sem er dökkur á hörund. Eftir brotið voru menn eitthvað að ýta í hvorn annan og ég fer til þeirra og ætla að róa menn niður,“ segir ‎Aron Elvar Finnsson sem dæmdi leik Fjölnis og ÍBV í 5. flokki karla í knattspyrnu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×