Innlent

Segir tóbaksfanatíker leggja fram bullgögn um veipur

Jakob Bjarnar skrifar
Á öndverðum meiði. Guðmundur Karl er hneykslaður á því að Pisinger hafi verið fengin til að flytja fyrirlestur en Viðar segir hana virtan fræðimann á sínu sviði.
Á öndverðum meiði. Guðmundur Karl er hneykslaður á því að Pisinger hafi verið fengin til að flytja fyrirlestur en Viðar segir hana virtan fræðimann á sínu sviði.
Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir furðar sig á því að Embætti landlæknis, Háskóli Íslands, Læknafélag Íslands og Krabbameinsfélagið hafi boðið upp á fyrirlesarann Charlottu H. Pisinger á málþingi um tóbaksvarnir sem haldið var í síðustu viku. Hann segir Pisinger fanatíker, eða ofstækismanneskju um tóbaksmál sem bulli og byggi mál sitt á vafasömum gögnum. Guðmundur Karl segir að sér hafi verið meinað að leggja fram fyrirspurn á málþinginu, sem hann hugðist beina til Pisinger.

Viðar Jensson verkefnastjóri, sem hafði veg og vanda að ráðstefnunni, segir gagnrýni Guðmundar Karls úr lausu lofti gripna. Pisinger sé virtur fræðimaður. Rætt er við Viðar seinna í þessari umfjöllun.

Málið tengist nýjum tóbakslögum þar sem til stendur að reisa skorður við aðgengi að rafsígarettum eða veipum. Guðmundur Karl segir fjölda mannslífa í húfi og segir að Íslendingar fljóti sofandi að feigðarósi á vængjum hræðsluáróðurs sem hafi fátt eitt með vísindi að gera: Um sannkölluð ólög sé að ræða.

Meinað að leggja fram fyrirspurn

Málþingið bar yfirskriftina „Hættu nú alveg!“ og var haldið í Kaldalóni í Hörpu á þriðjudaginn fyrir viku. Guðmundur Karl segist hafa átt orðastað við Pisinger í hléi og komst þá að því að hún þekkti ekki rannsóknirnar sem hún byggði mál sitt á. Sérstaklega tók hann til nýjustu rannsóknina sem ætti að vera henni í fersku minni.

Hann tilkynnti henni að hann ætlaði að leggja fram fyrirspurn en þegar til kom var honum meinað að leggja hana fram.

„Það var veifað og tilkynnt að búið væri að loka dagskrá,“ segir Guðmundur Karl í samtali við Vísi. Hann segir að þeir sem standi fyrir málþinginu þekki afstöðu hans og enginn áhugi sé fyrir því að hann fái að viðra þau sjónarmið.

Guðmundur Karl segist í áfalli eftir þessa upplifun. Pisinger hafi stuðst við hræðsluáróðurstaktík, hampað ruslvísindum og beinlínis farið með rangt mál.

Guðmundur Karl segist mega þola þöggun af hálfu þeirra stofnana sem standa að nýjum tóbakslögum, lögum sem Guðmundur Karl segir stórskaðleg.visir/stefán
„Hún, þessi drottning vitleysunnar, vissi ekkert um gögnin í þessum rannsóknum sem hún var að tala um. Ekki einu sinni þá nýjustu sem ég þræddi mig í gegnum fyrir hana lið fyrir lið. Hún var algjörlega blankó og gat ekki gefið skýringar á afstöðu sinni,“ segir Guðmundur – sem settist niður með blaðamanni Vísis og fór yfir ýmis gögn um málið. Þá hefur Guðmundur Karl skrifað nokkrar greinar um veipur sem birst hafa á Vísi, þá nýjustu má finna hér.

Veik gögn og jafnvel glæpsamleg

Guðmundur Karl hefur kynnt sér málið í þaula, lesið ótal rannsóknir um efnið og fer ítarlega yfir það með blaðamanni Vísis. Hann tók glærusýningu Pisinger upp á síma sinn og bar undir kollega sína, sérfróða á þessu sviði. Þeir áttu vart orð í eigu sinni.

„Ég ræddi meðal annars við Peter Hajek, sem er einn besti vísindamaðurinn á þessu sviði og ég hef borið ræður Pisinger undir hann og annan einn helsta sérfræðing á þessu sviði, Clive Bates, og þeir sögðu málflutning hennar augljóslega litaðan af andúð hennar á veipum – og fullkomlega ómarktækan.“

Guðmundi Karli blöskrar það hversu vel viðstaddir létu sér erindi Pisinger líka, að því er virðist algerlega lausir við gagnrýna hugsun.

„Ég er alveg rasandi,“ segir Guðmundur Karl; rannsóknir sem Pisinger vísar til byggi á veikum gögnum. „Og sumar þeirra eru bara blekkingar. Og sumar glæpsamlegar.“

Guðmundur Karl vísar í þeim efnum til umsagnar prófessors í Harvard en sá er fyrrverandi starfsmaður CDC og hefur verið í framlínu lýðheilsu í Bandaríkjunum um áratuga skeið. „Þvílík vonbrigði með þennan „vísindamann“ sem vill gera lítið úr nokkrum bestu fræðimönnum samtímans auk þess sem hún gaf ekkert fyrir skýrslur PHE eða RCP.“

Reykingar ungmenna aukast eftir lagasetningu

Guðmundur Karl segir algera einstefnu og einsýni ríkja meðal opinberra aðila sem standi að nýjum og umdeildum tóbakslögum og hann megi sæta þöggun vegna málsins. Skaðsemi væntanlegra laga er fyrirliggjandi að mati læknisins.

„Og elstu og virtustu læknasamtaka í heimi, Royal Collage of Physicians, fimm hundruð ára gömul samtök hvar 32 þúsund læknar eru skráðir. Og Public Health England, en Peter Hajek er einn höfunda þeirra skýrslu um málið. Pisinger vildi gera lítið úr honum og upphefja ruslvísindi.“

Nýjasta nýtt í þeim efnum er að Danir settu sambærileg lög og stefnt er að hér á landi fyrir um ári síðan eða í maí 2016. Nýlega var kynnt óbirt niðurstaða rannsóknar í Danmörku þar sem fram kemur að eftir að lögin voru sett þar hafa reykingar meðal ungmenna aukist um 15 prósent. Guðmundur Karl segir engum vafa undirorpið að þar sé um að kenna skaðlegum áhrifum laganna sem þrengja að veipum.

„Þetta er í heimalandi Pisinger,“ segir Guðmundur Karl.

Segir Guðmund Karl ekki hafa verið útilokaðan

Viðar Jensson verkefnastjóri segir málflutning Guðmundar Karls út úr kortinu. Hann hafi verið á staðnum og Guðmundi Karli hafi ekki verið meinað að taka til máls. Guðmundur Þorgeirsson, hjartalæknir og prófessor, hafi verið fundastjóri og það væri ágætt að fá hans sjónarmið fram. En, eins og þetta horfði við Viðari þá var engri þöggun til að dreifa. (Vísir náði ekki tali af Guðmundi vegna málsins.)

„Það sem kom mér á óvart var að þegar Guðmundur Karl fékk orðið fór hann að gera athugasemdir við 3. fyrirlesarann, en þeir voru þrír fyrirlesarar, og þá fyrirlesturinn sem var frá hagfræðistofnun. Um fyrstu tölur um þjóðfélagslegan kostnað vegna reykinga. Ég átti eiginlega von á því að hann væri með fleiri spurningar til Charlottu. Sem hann var ekki. Þannig að ég er hissa á að hann sé nú með þessar athugasemdir,“ segir Viðar.

Fundarstjóri stoppaði hann af, en Viðari fannst ekki sem verið væri að mismuna Guðmundi Karli. „Ég upplifði þetta ekki þannig að hann væri að útiloka hann.“

Pisinger virtur fræðimaður

En, hvernig stóð á því að Charlotta Pisinger, sem Guðmundur Karl kallar tóbaksfanatíker, var fengin til að flytja fyrirlestur á ráðstefnunni? Viðar kann svör við því.

„Ég fór á E-Cigarette summit, sem haldið var í London í nóvember 2016. Og þar hlustaði ég á nokkra fyrirlesara, meðal annars Charlottu Pisinger, þar sem hún var að fara skilmerkilega yfir allar rannsóknir sem hafa verið gerðar um þetta efni. Hún var með samantekt á staðreyndum, það sem mér fannst ég hafa grætt mest á og þess vegna lagði ég til að við fengjum hana til að koma á okkar tóbaksvarnarþing. Ég veit ekki til annars en að flestir hafi verið ánægðir með hana tölu,“ segir Viðar og bendir á að Guðmundur Karl sé algerlega á hinum enda litrófsins í afstöðu til rafsígaretta.

„Ekkert flóknara en svo. Þetta er virt rannsóknarmanneskja, hún er bara að fjalla um staðreyndir.“

Vinur eða vágestur

Viðar sendi Vísi glærusafn Charlotte Pisinger það sem hún studdist við í fyrirlestri sínum: „The electronic Cigarette – friend or foe?“ eða Rafsígarettan – vinur eða vágestur? Um er að ræða 89 glærur og víða er komið við sögu. Viðar vitnar í það og bendir á að ekki sé allt sem sýnist í þessum efnum. Til dæmis sé það svo að átta af hverjum þeim sem nota rafsígarettur reykja líka.

„Þannig að þetta er ekki eins mikið galdratæki og margir vilja vera láta.“

Viðar á bágt með að skilja hina hörðu andstöðu sem ný tóbakslög hafa mátt mæta því þar er í raun verið að lögleiða notkun veipa og stuðla að auknu öryggi.
Viðar segir rétt að Pisinger tali fyrir ákveðnum sjónarmiðum. „Allir eru sammála um að það þarf að rannsaka þetta betur. Hún stuðar Guðmund Karl með staðreyndum. Með því að segja eitt en ekki annað ertu að taka afstöðu. En, þá finnst honum í heildina að hún sé að fara með rangt mál en varla er hægt að segja að hún sé að fara með fleipur, hún er bara að fara með rannsóknir og staðreyndir. Þetta er ekki eitthvað sem hún býr til.“

Áhyggjur af því að rafsígarettur leiði til reykinga

Viðar segir að Pisinger hafi farið vel yfir þetta og viðrað andstæð sjónarmið. Erindi hennar hafi ekki verið neitt halelúja og hún kom inn á að menn væru ekki sammála í tóbaksvörnum. Viðar á erfitt með að skilja hina miklu og hörðu andstöðu sem ný tóbakslög hafi mætt því í raun sé verið að lögleiða notkunina:

„Og gera þeim sem vilja nota E-Sígarettur kleift að kaupa örugg tæki og viðurkennd efni. Þetta er það sem maður er hugsi yfir. Hinn endinn er þá sá að við viljum fara varlega með að þetta sé á þann hátt að börn og unglingar séu að hefja þessa neyslu. Það er okkar áhyggjuefni,“ segir Viðar. Hann vitnar í glærusafn Pisinger og segir að menn hafi áhyggjur af því að E-sígarettur leiði ungmenni yfir í það að byrja að reykja. Hann bendir á að víða á Norðurlöndum séu verið að taka upp sambærileg lög sem miði við Evróputilskipun.

Finnar banna sælgætisbragðið

„Tilskipunin sem verið er að innleiða með þessari löggjöf snýr bara að stærðum áfyllingaríláta, styrkleika vökvans og öryggi tækisins. En, það sem að snýr að hverju landi fyrir sig er aldurstakmark, auglýsingar og takmörkun á þeim svæðum sem leyfa neyslu. Skiptist í þetta. Evrópuþingið náði ekki saman um auglýsingar, aldurstakmark og hvar megi neyta vörunnar.“

Viðar segir að Finnar hafi innleitt sína löggjöf og þeir ganga lengra en hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa í hyggju og banna tilteknar bragðtegundir. Banna sælgætis- og ávaxtabragð. Þá ertu kominn með. Þeir eru með sýnileikabann á vöruna, bragðbann. Norðmenn eru með sitt í stórþinginu og eru komnir mjög langt. En þeir hyggjast ekki fara út í að banna einkennandi bragð.“

Löggjöf Dana sú sem er minnst takmarkandi

Danir tóku upp sína löggjöf fyrir ári en Guðmundur Karl segir rannsóknir leiða það í ljós að hún hafi reynst skaðleg; 15 prósenta aukning reykinga meðal danskra ungmenna?

„Þetta er bara ekki alveg rétt. Það sem er áhugavert við Danina, þeir erum með auglýsingabann, 18 ára aldurstakmark og svo taka þeir upp þessar stöðluðu stærðir frá Evrópusambandinu. En þeir banna neyslu á E-Sígarettum á opinberum stöðum svo sem skólum, sjúkrahúsum og öðrum stofnunum. En, svo segja þeir að aðrir staðir þurfi að birta með skýrum hætti hvernig reglurnar séu. Þannig að þú eigir ekki að velkjast í vafa um hvort bannað er eða ekki að neyta þessa. Ekki í löggjöfinni almennt. Hún er með þeim hætti að hún er minnst takmarkandi sem ég veit í Evrópu, stöðum er í sjálfsvald sett hvort þeir leyfi neyslu eða ekki.“

En, 15 prósenta aukning reykinga danskra ungmenna?

„Þetta dæmir sig sjálft. Reykingar eru allstaðar á niðurleið á Norðurlöndum og hafa verið. Guðmundur Karl verður bara að tala fyrir sig þarna. Það er ekki hægt að karpa um svona mál.“

Ekki er úr vegi að ljúka þessari yfirreið á þeirri spurningu hvernig hinum nýju tóbakslögum líði? Viðar segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hafa opnað tóbaksþingið og hann hafi sagt að það kæmi vonandi fram á næstu vikum.

Hér fyrir neðan getur að líta glærur þær sem Pisinger studdist við í fyrirlestri sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×