Innlent

Segir tímaspursmál hvenær stórslys verður

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Foreldrar í Vatnsenda í Kópavogi segja gangbraut á fjölförnum gatnamótum í hverfinu mikla slysagildru. 

Sjö ára gamall sonur Erlu Guðmundsdóttur var fluttur á slysadeild Landspítalans um áttaleytið í morgun eftir að keyrt var á hann við gangbrautina, þar sem hann fór yfir á hjóli. Því er skemmst frá því að segja að keyrt var á tólf ára gamlan bróður hans á sama stað í maí á þessu ári þar sem hann var á leiðinni í skólann. 

Meiðsli drengjanna voru sem betur fer ekki alvarleg, en Erla segir í raun bara tímaspursmál um hvenær stórslys verður. Staðsetning gangbrautarinnar sé afleit. 

„Gangbrautin er alltof nálægt hringtorginu svo ökumenn sjá ekki gangandi vegfarendur, hvað þá börn. Svo eru engir ljósastaurar sem lýsa svæðið upp. Nú hafa báðir synir mínir slasast þarna og það er of mikið, það er bara tímaspursmál hvenær stóra slysið verður,“ segir Erla. 

Dagmar Guðmundsdóttir býr við gangbrautina og segir slys bræðranna ekki einsdæmi. Þar sé reglulega keyrt utan í gangandi vegfarendur. Hún segir íbúa hverfisins hafa miklar áhyggjur af stöðu mála. Dagmar og Erla hafa haft samband við Kópavogsbæ vegna málsins en segjast ekki hafa fengið nein viðbrögð. 

 „Við ætlum að gera allt sem við getum svo þessu verði breytt,“ segir Erla. 

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ fimmtudaginn 28.ágúst segir:

"Ábendingum um slysahættu á gatnamótum Vatnsendavegar og Breiðahvarfs er tekið mjög alvarlega hjá Kópavogsbæ. Hér hjá bænum er verið að kalla eftir nánari upplýsingum um slysið í gær, þegar ekið var á dreng á gatnamótunum. Í framhaldinu verður umferðaöryggi á svæðinu skoðað nánar."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×