Innlent

Segir það gleðiefni að einhver vilji gefa félaginu hundrað milljónir

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Saad bin Ibrahim Al-Ibrahim, sendiherra Sádi Arabíu fyrir Svíþjóð og Ísland, afhenti í desember síðastliðnum fjárframlag til Íslandsdeild Félags múslima í Skandinavíu en upphæðin nemur hundrað og sjötíu milljónum króna.

Þeim fjármunum veitti viðtöku Hussein Al-Daoudi en hann var einn af þeim sem fjármagnaði kaup á Ýmishúsinu fyrir Menningarsetur múslima á sínum tíma. Imam Ahmad Seddeq, trúarleiðtogi Menningarsetursins, kannast ekki við þennan nýja styrk. Samkvæmt forsetaembættinu skoðaði sendiherrann lóð þar sem moska Félags múslima mun rísa í Reykjavík.

„Mér finnst sérkennilegt að Ahmad komi af fjöllum vegna þess að það er nú mynd af hans vinnuveitanda, Ald-Daoudi, að taka við peningum frá sendiherra Sádi Arabíu í sendiráðinu í Stokkhólmi fyrir 1.2 milljónir bandaríkjadala,“ segir Sverrir Agnarsson, formaður stjórnar Félags íslenskra múslima.

Sp. Blm. Er þetta sami styrkur og forseti Íslands kynnti á vefsvæði sínu eða nýr styrkur frá Sádi Arabíu?

„Ég veit það hreinlega ekki. Ég veit að hitt félagið hefur gengið mjög harkalega fram í því að skapa peninga út á okkar sögu, sagst vera fyrsta múslimafélagið á Íslandi og eina félagið sem rekur barnastarf, sem okkur hefur alltaf þótt mjög sérkennilegt.

Menningarsetur múslima varð til eftir klofning í röðum múslima á Íslandi en Salmann Tamimi, einn af imömum Félags múslima, hefur gagnrýnt múslima í Ýmishúsi fyrir öfgakenndar skoðanir og ofstæki.

Gerir ráð fyrir að peningarnir séu ætlaðir Félagi íslenskra múslima

Í yfirlýsingu sem Sverrir sendi fjölmiðlum í morgun kom fram að hvorki hann né stjórn Félags múslima hefði borist tilkynning um fjárstyrk frá Sádi Arabíu. Hann gerir þó ráð fyrir að peningarnir séu ætlaðir félaginu.

Sverrir er þessa stundina staddur í Lundúnum þar sem hann safnar fé fyrir hönnunarsamkeppni um mosku Félags múslima. Moskan verður sex hundruð og sjötíu fermetrar, á tveimur hæðum og með tuttugu metra bænaturni, eldhúsi fyrir hundrað manns og aðstöðu til líksmurningar.

„Það er gleðiefni að einhver vilji gefa okkur hundrað milljónir en fyrir okkur hefur það alltaf verið þannig að við höfum aldrei talað um annað.“

Sverrir segir það vera gleðiefni að einhver vilji gefa félaginu styrk en það verði aldrei gert ef skilyrði fylgja slíkum styrk.

Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa ítrekað og árum saman bent á stórkostleg mannréttindabrot í Sádi Arabíu. Nægir að nefna mál bloggarans Raif Badawi sem var dæmdur til tíu ára fangelsisvistar fyrir að móðga íslam. Badawi þurfti að þola fimmtíu svipuhögg og var nær dauða en lífi eftir það.

Á síðustu misserum hefur aftökum fjölgað verulega, af þessu ári hafa fjörutíu verið teknir af lífi í Sádi Arabíu. Á sama tíma hafa þarlend yfirvöld meinað öllum alþjóðlegum mannréttindasamtökum aðgengi inn í landið.

Sp. blm. Kemur til greina að taka við þessum peningum frá Sádi Arabíu?

„Þá er ég í þeirri stöðu að vera formaður stjórnar og það er stjórnin sem tekur afstöðu til þess. Það fyrsta sem ég geri þegar ég kem heim verður að setja mig inn í málið. Svo kemur stjórn saman og þá verður ákvörðun tekin,“ segir Sverrir.

Fréttastofa hefur gert tilraunir í dag til að ná tali af helstu leikendum í þessu undarlega máli, þar á meðal Hussein Al-Daoudi, en lítið hefur gengið í þeim efnum. Miðað við staðreyndir málsins þá er hægt að draga þá ályktun að styrktarféð hafi ávallt átt að rata til Félags múslima en vegna tilrauna Menningarsetursins til að tryggja sér stuðning hafi sendiherrann tekinn þá ákvörðun að styrkja klofningssamtökin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×