Viðskipti innlent

Segir stjórn Frjálsa taka framboði fálega

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ingvi Þór Georgsson hvetur félagsmenn í Frjálsa lífeyrissjóðnum til að láta sig varða málefni sjóðsins og mæta á aðalfund hans á morgun klukkan 17:15 í aðalstöðvum Arion banka í Borgartúni 19 í Reykjavík.
Ingvi Þór Georgsson hvetur félagsmenn í Frjálsa lífeyrissjóðnum til að láta sig varða málefni sjóðsins og mæta á aðalfund hans á morgun klukkan 17:15 í aðalstöðvum Arion banka í Borgartúni 19 í Reykjavík. vísir/vilhelm
Í fyrsta sinn í tvö ár standa fyrir dyrum kosningar í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins. Þær koma til vegna þess að Ingvi Þór Georgsson viðskiptafræðingur hefur boðið sig fram á móti tveimur sitjandi stjórnarmönnum.

Ingvi Þór segir framboðið ekki til komið vegna þess að honum hafi þótt stjórn sjóðsins ábótavant. „Í sjálfu sér ekki. Ég er mjög stoltur af því að vera í sjóðnum, en hef ákveðnar áhyggjur af sinnuleysi um stjórn hans.“ Það segir hann til dæmis endurspeglast í því að á síðasta ársfund sjóðsins hafi bara mætt 40 sjóðsfélagar af tæplega 50 þúsundum.

Þá gagnrýnir Ingvi Þór hvernig stjórn sjóðsins hafi tekið framboðinu, svo sem með því að senda ekki út til sjóðsfélaga í tölvupósti tilkynningu um framboð hans. Þá hafi um 300 orða kynning sem hann hafi sent til birtingar á vef sjóðsins verið stytt í um 20 orð.

„Þeir segjast bara senda út ef það eru nokkrar fréttir í einu,“ segir Ingvi. „Og ef ég hefði ekki boðið mig fram núna væri sjálfkjörið í stjórnina aftur. Þetta stuðar mann aðeins.“ Í svo stórum lífeyrissjóði ætti enginn að ganga að því vísu að labba bara inn í stjórn.

Ingvi segir lífeyrissjóðina skipta sköpum fyrir framtíðarvelferð þjóðarinnar og því þurfi fólk að láta sig sjóðina varða og geta treyst þeim. Traust til sjóðanna fari hins vegar hríðminnkandi og litlu sé varið í fræðslu eða kynningu á þeim. „Samt sem áður greiða landsmenn á bilinu 10 til 15 prósent launa sinna mánaðarlega til þessara sjóða.“

Eignir fólks í sjóðunum séu miklar sem kalli á bæði aukið aðhald með þeim og bætta upplýsingagjöf.

„Ég stend harður á því að réttur sjóðsfélaga til að hafa áhrif á framgang mála og stefnu lífeyrisjóðanna í heild sé best nýttur á aðalfundi. Félagsstarf er mikilvægt og ungt fólk verður að láta til sín taka í því.“

Ingvi Þór hvetur sjóðsfélaga til að mæta á ársfundinn, sem er á morgun, bæði til að nýta rétt sinn til kosninga og eins til að sýna í verki að fólki sé ekki sama um málefni lífeyrissjóðanna.

„Ég stend heils hugar með Frjálsa og tel hann standa öðrum lífeyrissjóðum framar,“ segir hann og kveðst vilja vinna að virkara félagsstarfi sjóðsins og vandaðri upplýsingum til félagsmanna.

Í framboði á morgun

Frestur til að skila inn framboði í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins fyrir ársfundinn á morgun rann út 19. maí síðastliðinn. Kosið verður um tvo aðalmenn til tveggja ára og tvo varamenn til eins árs.

Fram kemur á vef sjóðsins að í framboði í aðalstjórn séu Anna Sigríður Halldórsdóttir hagfræðingur, sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands og stjórnarmaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum, Ásgeir Thoroddsen lögfræðingur, lögmaður og stjórnarformaður í Frjálsa lífeyrissjóðnum, og Ingvi Þór Georgsson, viðskiptafræðingur og M.Sc. í alþjóðaviðskiptum, starfsmaður í upplýsinga- og kynningarmálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.

Sjálfkjörið er í varastjórn sjóðsins.



Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. maí







Fleiri fréttir

Sjá meira


×