Innlent

Segir skilið við Ísland og stofnar munaðarleysingjahæli

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Eftir að hafa starfað sem sjálfboðaliði á munaðarleysingjahæli í Afríku ákvað Anna Þóra Baldursdóttir, tuttugu og sjö ára gömul kona úr Hafnarfirði, að stofna heimili fyrir yfirgefin börn í Keníu, sem hún stefnir á að opna síðar á þessu ári.

Hún fór fyrst til Nairobí í Keníu árið 2013, til að vinna sjálfboðastarf á heimili fyrir yfirgefin börn. Síðan þá hefur hún farið þrisvar sinnum út, í nokkra mánuði í senn. 

„Ég kom aldrei aftur heim, hugurinn var alltaf úti. Svo mig langaði að gera eitthvað meira,“ segir Anna.

Anna hefur nú stofnað félagasamtök um verkefnið ásamt sænskri vinkonu sinni, og stefna þær á að kaupa land og byrja að byggja strax í sumar. Hún segir að á þessu svæði Afríku sé þörfin fyrir barnaheimili og sjálfboðaliða mikil, þar sem algengt sé að börn séu yfirgefin strax við fæðingu. Hún varð oft vitni að slíku. 

Anna vinnur hún hörðun höndum að því að sækja um styrki til að fjármagna verkefnið. Hún er staðráðin í að láta gott af sér leiða og fara þessa leið, þó hún sé nokkuð óhefðbundin.

„Ég er að fara í allt aðra átt heldur en allar vinkonur mínar, þær eru flestar komnar með börn eða farnar að íhuga að gifta sig. Svo það kannski segir svolítið um hvað ég er mikið á allt annarri leið heldur en flestir mínir jafnaldrar. En mér líður vel þarna, og þetta er það sem mig langar að gera,“ segir Anna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×