Enski boltinn

Segir Shawcross fullkominn fyrir Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stoke er betra með Ryan Shawcross í liðinu.
Stoke er betra með Ryan Shawcross í liðinu. vísir/getty
Phil Thompson, fyrrverandi leikmaður Liverpool sem starfar sem sérfræðingur Sky Sports í dag, segir að Ryan Shawcross, miðvörður Stoke, sé maður Rauði herinn ætti að skoða vel næsta sumar.

Thompson er feginn að Shawcross verði ekki með Stoke í seinni leik liðsins gegn Liverpool í undanúrslitum deildabikarsins í kvöld.

Shawcross, sem ólst upp hjá erkifjendunum í Manchester United, hefur staðið sig vel í vörn Stoke sem hefur sjö sinnum haldið hreinu í síðustu þrettán leikjum.

Til að undirstrika mikilvægi Ryan Shawcross fyrir Stoke bendir Thompson á þá staðreynd í grein á Sky Sports, að Stoke hefur aðeins unnið tvo leiki af tíu þegar miðvarðarins hefur ekki notið við.

Jürgen Klopp er í miklum vandræðum með varnarleikinn hjá Liverpool, sérstaklega vegna meiðsla, en liðið fékk á sig fjögur mörk á útivelli gegn Norwich um helgina.

„Þegar Liverpool lítur yfir farinn veg eftir tímabilið og sér hvernig mörk það er að fá á sig, þá er ekki útilokað að það horfi til Shawcross sem lausnar á því vandamáli,“ segir Thompson.

„Í rauninni tel ég hann vera fullkominn kost því hann hefur verið einn vanmetnasti miðvörður deildarinnar undanfarin fimm ár. Það þarf ekki nema að horfa á tölfræði Stoke með hans og án hans,“ segir Phil Thompson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×