Innlent

Segir SALEK-samkomulagið brot á stjórnarskrá

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Eins og flestir vita undirritaði forseti ASÍ fyrir hönd sambandsins rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins 27. október 2015 og er það mat VLFA að forsetinn hafi ekki haft neitt umboð til að undirrita umrætt samkomulag,“ segir Vilhjálmur.
"Eins og flestir vita undirritaði forseti ASÍ fyrir hönd sambandsins rammasamkomulag aðila vinnumarkaðarins 27. október 2015 og er það mat VLFA að forsetinn hafi ekki haft neitt umboð til að undirrita umrætt samkomulag,“ segir Vilhjálmur. vísir/pjetur
Félagsdómur mun á miðvikudag taka fyrir mál Verkalýðsfélags Akraness gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna SALEK-samkomulagsins svokallaða. Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, segist sannfærður um að samkomulagið sé gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, sem og stjórnarskránni.

Heildarsamtök launafólks og atvinnurekenda á almennum og opinberum vinnumarkaði skrifuðu hinn 27. október síðastliðinn undir samkomulag um breytt vinnubrögð við gerð kjarasamninga. Samkomulagið var afrakstur af vinnu SALEK-hópsins og nær til um sjötíu prósent launafólks sem á aðild að stéttarfélögum á Íslandi. Alþýðusamband Íslands, ASÍ, var á meðal þeirra sem skrifuðu undir samkomulagið. Vilhjálmur segir Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, ekki hafa haft umboð til þess.

Fengu engin gögn í hendurnar

„Samkomulag sem skuldbindur aðildarfélög ASÍ til að ákvarða launabreytingar allt til ársins 2018 sem og afsala sér endurskoðun kjarasamninga svo ekki sé talað um að sett verði á laggirnar nýtt vinnumarkaðslíkan þar sem skipað verði svokallað þjóðhagsráð sem mun ákvarða allar hámarkslaunabreytingar og að stéttarfélögum verði skylt að vera innan þess svigrúms eins og kveðið er á um í samkomulaginu,“ segir Vilhjálmur í pistli á vefsíðu félagsins.

Hann segir nær enga umræðu hafa farið fram um samkomulagið og að ekki hafi verið kallað eftir umboði af hálfu VLFA. Þá hafi Starfsgreinasamband Íslands fengið munnlega kynningu nokkrum mínútum áður en samkomulagið hafi verið undirritað. Engin drög eða gögn hafi verið lögð í hendur aðildarfélaganna.

Samningsfrelsið hornsteinn samningsbaráttu

„Með öðrum orðum, þetta rammasamkomulag var undirritað án nokkurs umboðs enda kom fram á miðstjórnarfundi sem haldinn var 4. nóvember að nú þyrfti að fara að kynna samkomulagið á meðal aðildarfélaga ASÍ og út á hvað það gengi. Semsagt, gengið var frá samkomulaginu og síðan átti að fara að kynna það en rétt er að taka það fram að engin kynning hefur farið fram af hálfu Alþýðusambands Íslands á meðal aðildarfélaga sambandsins, allavega ekki hjá Verkalýðsfélagi Akraness.“

Vilhjálmur gagnrýnir samkomulagið harðlega. Hann segir það ganga að verulegu leyti út á að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna, meðal annars með því að ákveða fyrir fram hverjar launabreytingar megi vera til ársins 2018. „Þetta er eðli málsins samkvæmt gróft brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem og stjórnarskránni enda er samningsfrelsið hornsteinn stéttarfélagsbaráttu á Íslandi,“ segir hann.

Vilhjálmur segir að lokum að gríðarlega mikilvægt sé að Félagsdómur kynni sér þetta mál vel og rækilega og verji frjálsan samningsrétt íslenskra stéttarfélaga sem bundinn sé í lögum og stjórnarskrá.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×