Innlent

Segir Rúv í „pólitískum herleiðangri“ gegn forsætisráðherra

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán/Ernir
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir fréttastofu Ríkisútvarpsins vera í pólitískum herleiðangri gegn forsætisráðherra og ríkisstjórninni. RÚV hafi fyrir um tveimur vikum sagst vera í samstarfi við aðila sem segist búa yfir upplýsingum um aflandsreikninga Íslendinga.

Á þeim tíma hafi litlar upplýsingar birst „en þess fleiri aðilar tjáð sig um málið hjá Ríkisútvarpinu sem hefur farið með þessa aflandslista eins og leyndarmál og ekki viljað birta þá í heild sinni þrátt fyrir áskoranir þar um.“

Þetta segir Þorsteinn í aðsendri grein sem birt var á Vísi í dag og þar segir hann enn fremur að augljóst sé að Ríkisútvarpið noti listana í þeim tilgangi að koma höggi á forsætisráðherra og ríkisstjórnina, í stað þess að einbeita sér að því að veita upplýsingar um málið.

„Þannig er augljóst að tilteknar upplýsingar úr þessum listum eru birtar og öðrum haldið eftir. Síðan hafa álitsgjafar verið valdir af mikilli vandvirkni í því leikriti sem Ríkisútvarpið hefur sett á svið um leið og það hefur kastað allri hlutlægni fyrir róða.“

Við þetta má bæta að á vef RÚV í dag birtist frétt um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hafi ekki þegið ítrekuð boð um viðtöl við fréttastofu RÚV að undanförnu og ætli ekki að gefa frekari skýringar á því.  

Í grein sinni fer Þorsteinn yfir nokkrar af fréttum RÚV um málið og dregur upp tengingar viðmælenda fréttastofunnar við vinstri flokka og andstöðu við Framsóknarflokkinn.

Grein Þorsteins má sjá hér í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×