Erlent

Segir Rússa ekki vera einangraða vegna Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Vladimír Pútín segir að um leið og rússnesk stjórnvöld byrji að verja hagsmuni sína sé það slæmt í huga Vesturlanda.
Vladimír Pútín segir að um leið og rússnesk stjórnvöld byrji að verja hagsmuni sína sé það slæmt í huga Vesturlanda. Vísir/AFP
Vladimír Pútín Rússlandsforseti kennir Vesturlöndum um versnandi samskipti þeirra og Rússa frá upphafi Úkraínudeilunnar og segir að rússnesk stjórnvöld muni ekki leyfa sjálfum sér að einangrast á alþjóðlegum vettvangi handan annars „Járntjalds“.

Pútín segir í viðtali við rússneska ríkisfjölmiðilinn TASS að viðskiptaþvinganir Vesturlanda gegn Rússum, veiking rúblunnar og lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu muni ekki hafa neinar „hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir rússneskan efnahag“.

Bandaríkin, aðildarríki Evrópusambandsins og fleiri ríki hafa beitt Rússum viðskiptaþvingunum vegna innlimunar þeirra á Krímskaga og stuðnings rússneskra stjórnvalda við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

„Við skiljum það ólán sem „Járntjald“ hefði í för með sér fyrir okkur. Við munum ekki feta þá braut og enginn mun reisa vegg í kringum okkur. Það er ómögulegt,“ sagði Pútín.

Í frétt Reuters kemur fram að Pútín segi að um leið og rússnesk stjórnvöld byrji að verja hagsmuni sína sé það slæmt í huga Vesturlanda. „Heldur þú að þetta sé vegna afstöðu okkar í málefnum Úkraínu eða Krím? Engan veginn. Ef það væri ekki vegna þeirra mála þá hefðu þeir fundið einhverja aðra ástæðu. Þannig hefur þetta alltaf verið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×