Innlent

Segir ríg á milli ríkra og fátækra í Grindavík

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Valgarður
„Þetta snýst ekki bara um einhvern einn kennara, þetta er miklu flóknara mál. Það eru sögusagnir um aðra kennara og svo framvegis,“ segir Stefán Karl Stefánsson, fyrrverandi formaður Regnbogabarna.

Stefán Karl var gestur í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í morgun, þar sem hann ræddi um eineltismálið í Grindavík og stöðuna þar. Hann segir bæinn skiptast í tvennt og að taka þyrfti á málinu.

Stefán bendir á að bæði fólk sem eigi börn í skólanum núna og fólk sem hafi verið í skólanum hafi sett sig í samband við sig. Umræðan snúist um einn einstakan kennara sem hefur verið að leggja í einelti.

„Það hafa verið gerðar óháðar rannsóknir af sálfræðingum og öðrum, sem taka af allan vafa fyrir mér að þarna er um einelti að ræða.“

Ekki tekið föstum tökum á málinu

„Þetta er, því miður, mjög algengt og einskorðast ekkert við Grindavík. Hann er enn að kenna og tillögurnar sem koma frá skólastjórnendum og skólaskrifstofu Grindavíkurbæjar og jafnvel bæjarstjórinn styður það, er að kennarinn sé færður innar í ganginn. Til að forðast að börnin hitti hann.“

Stefán Karl segir þetta mál vera orðið það alvarlegt að foreldrar hafi verið í strangri baráttu frá því fyrir jól og hafi tekið á það ráð að taka börnin úr skólanum vegna líkamlegra einkenna sem hafi komið í ljós vegna andlegrar vanlíðan barnanna.

Hann segist hafa heyrt af öðrum málum sem hafa komið upp í Grunnskóla Grindavíkur, en tekur fram að það sé ekkert meira en í öðrum skólum.

„Þar hafa mál leyst bæði farsællega og önnur ekki. Það virðist vera að það sé ekki tekið föstum tökum á málum þarna. Þá er spurningin hvað veldur?“

Stefán Karl segir að innan sveitarfélaga og skóla séu öfl og mikil tengsl á milli fólks og mikil nálægð.

„Það kannski veldur því að skólastjórar og stjórnendur hafa ekki kjark til að setja hnefann í borðið og taka á málunum og víkja viðkomandi. Það er engin spurning að það eru lagaheimildir fyrir því. Það á að víkja kennara frá störfum tímabundið, á meðan málið er rannsakað almennilega af barnaverndaryfirvöldum og óháðum aðilum,“ segir Stefán Karl og bætir við:

„Reynist það rétt að viðkomandi er að stunda einelti, hvort sem það er ætlun hans eða ekki. Þá á að víkja viðkomandi frá störfum fyrir fullt og allt.“

Stéttaskipting eins og hún gerist íslenskust

Stefán skýrði frá því að hús fjölskyldu eins fórnarlambs eineltis hefði verið eggjað í nótt.

„Það er eins og það sé að brjótast út einhver múgæsing og fólk er að skipta sér í fylkingar. Þetta er það sem gerist í litlu samfélagi þar sem tvö ólík öfl mætast og ég hef heyrt mjög mikið talað um að þeir sem eru ríkir og eiga mikla peninga skipti sér í einn hóp og þeir sem eru á fátækari endanum séu einhverskonar lowlife lið í þeirra augum og þarna sé mikill rígur á milli.“

„Þetta er hlutur sem við sjáum í samfélögum, ekki bara út á landi, heldur í hverfum í Reykjavík líka. Þetta er stéttaskipting eins og hún gerist íslenskust, ef svo má að orði komast.“

Stefán sagði það virðast vera að þeir kennarar sem takist upp á því að níðast á börnum yfir höfuð, ráðist á veikasta hlekkinn í bekknum.

„Þetta eru krakkar með einhvers konar greiningu jafnvel, lesblindu, það er mjög algengt að krakkar sem eru með hana verði fyrir svona fólki.“

Aðspurður hvort hann geti komið með dæmi um hvernig kennarinn hafi lagt börn í einelti segir Stefán: „Það virðist vera að nemandi sem sé lesblindur er látinn standa upp og lesa fyrir bekkinn. Það er verið að gera grín að viðkomandi fyrir það og svo framvegis.“

Stefán segir þetta ekki vera fyrsta málið sem hann hafi tekið að sér að aðstoða í og bendir á mál ekki alls fyrir löngu í Vesturbæjarskóla þar sem það hafi tekið tvö ár að víkja kennara tímabundið frá störfum vegna gruns um einelti.

Skorar á stjórnvöld og skólastjóra

„Ég vil bara hvetja yfirvöld, Menntamálaráðuneytið, til að leggja niður kaffibollann og drífa sig til Grindavíkur, setja hnefann í borðið og segja stopp hér. Málið er orðið mjög alvarlegt í bæjarfélaginu. Bærinn er farinn að skiptast, sýnilega eins og eggjakastið sýnir, upp í tvær fylkingar. Með og á móti, en þarna standa börn í milli og eru að verða vitni að þessu,“ segir Stefán Karl.

„Ég hef ekki fengið neina vitneskju um það og ekki foreldrar barnanna heldur, né nokkur annar,“ segir Stefán Karl, spurður hvort hann viti til þess að Menntamálaráðuneytið sé með eitthvað á prjónunum í þessu máli.

„Skólinn þegir eins og gröfin og segir ekki neitt.“

„Skólastjórinn hefur alræðisvald í skólanum, svo það sé algerlega á hreinu, svo framarlega sem hann fylgir lögum og svo framvegis. Þessi skólastjóri verður oft að taka mjög erfiðar ákvarðanir en það er starf skólastjóra. Það getur verið mikil nánd og mikill vinskapur, til margra ára og áratuga þess vegna. Engu að síður verður hann að taka þessar ákvarðanir og láta einhver vinasambönd og þrýsting fyrir aftan sig.“

„Skólastjóri Grindavíkurskóla er með gullið tækifæri í höndunum. Þetta er komið í fjölmiðla, það vita allir að þessu og augun beinast að þessum skóla og því hvernig honum er stjórnað. Hann er með gullið tækifæri í höndunum til að snúa við blaðinu í þessu bæjarfélagi,“ segir Stefán Karl og bætir við:

„Ég skora á skólastjórann að grípa til sjálfstæðra aðgerða, því ég veit að skólastjórinn er að vinna gegn sinni sannfæringu í þessu máli.“

Allt viðtalið má hlusta á hér að ofan.


Tengdar fréttir

Einelti kennara í Grindavík: Nemendur hættir að mæta í skólann

Tvær formlegar kvartanir hafa borist skólayfirvöldum vegna kennarans og hafa þær verið til rannsóknar hjá sálfræðingum. Fimmtán nemendur hafa skrifað undir harðorða yfirlýsingu til bæjaryfirvalda þar sem minnst sé á einelti, ofbeldi og þöggun frá fyrri tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×