Innlent

Segir óundirbúnar fyrirspurnir „hálftíma hálfvitanna“

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði suma tala um óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi sem "hálftíma hálfvitanna“.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði suma tala um óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi sem "hálftíma hálfvitanna“.
Á borgarstjórnarfundi í dag lagði Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fram tillögu þess efnis að taka skuli upp óundirbúnar fyrirspurnir til borgarstjóra líkt og tíðkast á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnartíma ráðherra.

Hildur sagði á fundinum að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir minnihlutann í borgarstjórn að hann hafi færi á sinna eftirlitshlutverki sínu eins og kostur er.

„Það er mikilvægt að minnihlutinn geti treyst á ramma þar sem hægt er að hafa beinan aðgang að æðsta embættismanni borgarinnar með spurningar sem borgarstjóri verði að svara. Slíkt myndi bæta samtal á milli meiri- og minnihluta á skýran og gagnsæjan hátt og með því væru borgarstjórnarfundirnir skilvirkari í því hlutverki sínu sem opinber málstofa gagnvart almenningi og fjölmiðlum,“ segir Hildur.

Í umræðum um tillöguna talaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um að talað væri um þennan dagskrárlið á Alþingi sem „hálftíma hálfvitanna“ og sagði að það skipti máli hvernig svona tími væri nýttur. Hann tók þó vel í tillöguna og sagði að það mætti gjarnan skoða að gera tímabundna prufu á hvernig svona dagskrárliður gæti gengið í borgarstjórn.

Hildur svaraði því til að hún harmaði að með þessum orðum borgarstjóra væri verið að ýja að því að minnihlutinn þyrfti að passa sig hvernig þeir myndu haga orðum sínum í þessum dagskrárlið ella myndi meirihlutinn hætta að bjóða upp á þennan dagskrárlið; það væri þvert gegn tilgangi tillögunnar um að minnihlutinn hefði aðgang að dagskrárlið þar sem hægt væri að spyrja borgarstjóra að hverju því sem hann telur brýnt hverju sinni, án þess að meirihlutinn hafi yfir því það forráð að geta stoppað það af af hentugleik.

Tillögunni var vísað til forsætinefndar til umsagnar.

Tillaga Hildar:

Lagt er til að fyrsti dagskrárliður hvers borgarstjórnarfundar verði óundirbúnar fyrirspurnir borgarstjóra. Forsætisnefnd verði falið að móta tilhögun með hliðsjón af þingskaparlögum um óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi, að breyttu breytanda.

Bókun Sjálfstæðisflokksins:


Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að samþykkt hafi verið að vísa tillögunni til forsætisnefndar til nánari úrvinnslu. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma þó að meirihlutinn hafi ekki treyst sér til að samþykkja tillöguna eins og hún lá skýr fyrir um mikilvægi þess að dagskrárliður um óundirbúnar fyrirspurnir borgarstjóra verði á hverjum einasta borgarstjórnarfundi, í byrjun dagskrár og ekki til einhverrar reynslu til skamms tíma eins og var ýjað að í umræðunni. Allir slíkir fyrirvarar gera lítið úr þeim ramma sem minnihlutinn er hér að biðja um til að geta treyst á að geta gætt að eftirlitshlutverki sínu, án þess að það sé á nokkurn hátt á forræði meirihlutans eins og nú er. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska þess að í vinnu forsætisnefndar við útfærslu tillögunnar verði sá mikilvægi þáttur tillögunnar hafður að leiðarljósi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×