Innlent

Segir ökumenn hjá ferðaþjónustu fatlaðra hafa áreitt sig kynferðislega

Bjarki Ármannsson skrifar
Steinunn segir mennina meðal annars hafa káfað á sér og sent henni SMS utan vinnu.
Steinunn segir mennina meðal annars hafa káfað á sér og sent henni SMS utan vinnu. Vísir
Steinunn Jakobsdóttir, hreyfihömluð kona sem hefur nýtt sér ferðaþjónustu fatlaðra undanfarin ár, segist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu nokkurra ökumanna á vegum ferðaþjónustunnar. Framkvæmdastjóri Strætó hvetur hana til að kæra hegðun mannanna til lögreglu og segir það hafa komið til tals að koma fyrir upptökubúnaði í bílum á vegum þjónustunnar.

„Skýr skilaboð um að mér hafi ekki verið trúað“

Steinunn hefur verið lömuð öðrum megin á líkamanum eftir að hún fékk heilablóðfall fyrir ellefu árum. Hún hefur nýtt sér ferðaþjónustu fatlaðra allar götur síðan til að komast í sjúkraþjálfun og til læknis. Frá því um síðustu áramót hefur Strætó séð um að reka þjónustuna en Steinunn nýtti sér áður akstur sem var í boði hjá Kópavogsbæ.

„Ég vil ekkert alhæfa, það eru auðvitað góðir menn þarna á milli,“ segir Steinunn. „En það var orðið þannig að það lá við að ég þyrfti að taka kvíðastillandi lyf áður en ég fékk ferð hjá ferðaþjónustunni.“

Steinunn lýsir nokkrum skiptum þar sem hún telur ökumenn hafa brotið á sér. Hún segir einn bílstjóra hafa snert á sér brjóstið við það að festa á hana sætisbelti. Annar hafi haldið eftir farsímanúmeri hennar, sem hann fékk í tengslum við vinnu sína, og notað það til að senda henni SMS og hringja í hana utan vinnu.

„Maður hugsar auðvitað: „Er þetta í alvörunni að gerast?““ segir Steinunn.Mynd/Steinunn Jakobsdóttir
„Hann sendi mér SMS seint um kvöld þegar það var jólafrí fyrir svona fimm árum,“ segir Steinunn. „Það var svona: „Langt síðan ég hef fengið að keyra þig, sæta.“ Mér fannst þetta svo ofboðslega óviðeigandi að ég hringdi í yfirmann ferðaþjónustu fatlaðra í Kópavogi. En mér var ekki trúað, því næst þegar það átti að sækja mig, þá var það sami bílstjórinn og ég hafði verið að kvarta yfir. Það voru mjög skýr skilaboð um að mér hafi ekki verið trúað.“

Steinunn segir bílstjórann jafnframt hafa hringt í hana þegar Strætó tók yfir rekstur ferðaþjónustunnar af Kópavogi til að tilkynna henni að hann hafi ráðið sig til Strætó og fengi þannig áfram að keyra hana.

„Maður hugsar auðvitað: „Er þetta í alvörunni að gerast?““ segir Steinunn.

„Maður fær bara hroll“

Þá lýsir Steinunn atviki sem á að hafa átt sér stað á þessu ári, eftir að Strætó tók við þjónustunni. Þá hafi tveir bílstjórar rætt sín á milli um hana svo hún heyrði þegar verið var að sækja hana á MS setrið í Reykjavík. Báðir bílstjórarnir hafi þekkt hana frá því að hún var í endurhæfingu á Grensási, stuttu eftir að hún fékk heilablóðfallið.

„Annar segir við hinn: Manstu ekki eftir henni Steinu?“ segir Steinunn. „Og hinn segir, mjög ógeðfelldri röddu: „Jú, ég man eftir henni Steinu. Það sem mér þótti einna verst var að það eina sem maður fékk að gera var að hjálpa henni í fötin, maður fékk aldrei að klæða hana úr þeim.“ Þú getur ímyndað þér, þeir eru að tala um þegar ég var eins og ósjálfbjarga barn andlega. Maður fær bara hroll.“

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Í opinni færslu á Facebook í síðasta mánuði nafngreindi Steinunn nokkra ökumenn Strætó sem hún taldi hafa brotið á sér í gegnum tíðina. Í kjölfarið höfðu yfirmenn Strætó samband við Steinunni og buðu henni að koma á fund sinn og ræða málin. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sat meðal annarra fundinn. Hann segir fyrirtækið líta málið mjög alvarlegum augum en að enginn starfsmaður hafi verið rekinn eða kærður vegna kvartana hennar.

Málið þurfi að fara rétta leið

„Við buðum henni aðstoð og töluðum við alla bílstjórana,“ segir Jóhannes. „Þetta er auðvitað mjög erfitt mál, en ég ætla ekkert að vera einhver dómstóll alþýðunnar í þessu máli þannig að ég bara hvet hana til að kæra. Ég ætla ekkert að draga í efa að hún hafi eitthvað til síns máls en hún þarf bara að fara með það rétta leið.“

Hann ítrekar jafnframt að þeir ökumenn sem ráðnir eru til starfa með fötluðu fólki þurfi að fara í gegnum mjög strangt ráðningarferli. Allir séu þeir með hreina sakaskrá. Aðspurður segir hann það hafa komið til tals að koma fyrir upptökubúnaði í bílunum, bæði til að gæta hags bílstjóranna og farþeganna.

„Ég geri nú ráð fyrir því að við munum skoða það mjög gaumgæfilega en það var allavega ekki gerð krafa um það þegar þessi þjónusta var auglýst,“ segir hann. „Þetta er auðvitað síðan bara kostnaður og það er ekkert hlaupið að því að myndavélar í svona bíla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×