Innlent

Segir nemendum Verzló ekki vorkunn að þurfa að leggja lengra frá

Birgir Olgeirsson skrifar
Verzlingar óánægðir eftir að hafa verið vísað frá bílastæðum austan megin við Kringluna. Framkvæmdastjóri Kringlunnar hefur bent nemendum á að þeir megi nýta stæðin vestan megin við Kringluna og þurfi aðeins að ganga  hundrað skrefum meira eða minna þurrum fótum í gegnum Kringluna til að komast í skólann.
Verzlingar óánægðir eftir að hafa verið vísað frá bílastæðum austan megin við Kringluna. Framkvæmdastjóri Kringlunnar hefur bent nemendum á að þeir megi nýta stæðin vestan megin við Kringluna og þurfi aðeins að ganga hundrað skrefum meira eða minna þurrum fótum í gegnum Kringluna til að komast í skólann. Vísir
Nemendur Verzlunarskóla Íslands ráku upp stór augu í morgun þegar þeir komu að bílastæðum austan megin við verslunarmiðstöðina Kringluna. Um er að ræða bílastæðin við Stjörnutorg en búið var að setja keðju fyrir innganginn og við þeim blasti miði þar sem þeim var bent á að leggja í bílastæði sem eru vestan megin við Kringluna.

Er það svo að bílastæðin við Verzlunarskólann anna ekki bílaflota nemenda og því hafa þeir lagt í þessi stæði austan megin við Kringluna sem eru nær skólanum en þau sem eru vestan megin.

Urðu einhverjir nemendur afar óánægðir vegna þessarar ákvörðunar og gengu sumir svo langt að hvetja til sniðgöngu á þjónustu við Stjörnutorg. Er ætlunin hjá einhverjum að mæta þangað með nesti í stað þess að eiga í viðskiptum við veitingastaðina þar.

Rekstaraðilar sem eru staðsettir þarna séu ekki sáttir við borga háa leigu og há húsgjöld og svo séu stæðin upptekin fyrir aðra en viðskiptavini.mynd/vilhelm
Óánægja meðal nemenda sem eru stór kúnnahópur

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskóla Íslands, segir í samtali við Vísi að þetta sé í fyrsta skiptið í langan tíma sem forsvarsmenn Kringlunnar loka þessum stæðum. Einhver ár eru síðan það var síðast gert en hingað til hefur að sögn Inga verið óformlegt samkomulag á milli Kringlunnar og Verzlunarskólans þess efnis að stæði Kringlunnar standa nemendum skólans til boða og á móti hafi skólinn opnað sín stæði fyrir viðskiptavinum Kringlunnar þegar mesta jólatraffíkin er.

„Þetta hefur aldrei verið neitt formlegt samkomulag en menn hafa verið ásáttir um það,“ segir Ingi sem segir að auðvitað sé mun þægilegra fyrir nemendurna að leggja austan megin við Kringluna fremur en vestan megin.

„Nemendurnir eru að sjálfsögðu óánægðir með þetta. Kringlumenn hljóta að gera sér grein fyrir því að þetta er mjög stór viðskiptahópur,“ segir Ingi.

Góðæristengt vandamál

Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, segir það gefa augaleið að bílastæði Kringlunnar séu ætluð fyrir viðskiptavini Kringlunnar og rekin og kostuð sem slík af húsinu. Rekstaraðilar sem eru staðsettir þarna séu ekki sáttir við borga háa leigu og há húsgjöld og svo séu stæðin upptekin fyrir aðra en viðskiptavini. Hann segir þessi mál koma upp með reglulegu millibili og séu þá góðæristengd. Með aukinni hagsæld í samfélaginu fjölgi þeim sem eru á bílum og á það einnig við nemendur Verzlunarskólans.

„Við höfum alltaf horft til þess, því þessi mál koma ítrekað upp, annars vegar eru hagsmunir þeirra sem eru húsinu og borga okkur gjöldin, sem reka stæðin, þegar þau eru teppt af bílum nemenda þá nýtast þau ekki viðskiptavinum hússins. Við höfum lagt til við þau, því fjöldi stæða hér austan megin við húsið en eru takmarkaðri en vestan megin við húsið, að leggja í stæðin vestan megin við húsið og ganga í gegnum húsið að hluta, þá væri það þannig að það dreifðist og við yrðum minna vör við það,“ segir Sigurjón.

Eina leiðin inn í Borgarbókasafnið

Bílastæðin sem um ræðir eiga einnig að nýtast þeim sem sækja Borgarbókasafnið sem er í Kringlunni og segir Sigurjón forsvarsmenn þess ýta á að aðgengi að safninu sé gott, því eina leiðin inn á bókasafnið sé af umræddu bílastæði.

„Með því að loka á stæðin þarna þá erum viða að ýta á nemendur að fara vestan megin við húsið. Öðrum kosti eins og eðlilegt er þá leggja menn næst inngangi hvar sem er. Það er svo sem ekki verið að útiloka það að nemendur Verzlunarskólans nýti stæði Kringlunnar,“ segir Sigurjón sem var í sambandi við Brynju Sigurðardóttur, formann hagsmunaráðs nemendafélags skólans, um málið.

Stæðin fyrir utan Verzlunarskólann anna ekki bílaflota nemenda. VÍSIR/Vilhelm
Stæði skólans nýtast Kringlunni nokkra daga ári

Aðspurður út í óformlegt samkomulag skólans við Kringluna um að deila stæðum svarar Sigurjón því að stæði Verzlunarskólans nýtist Kringlunni þessa síðustu fimm til sex daga fyrir jóla þegar þarf að dreifa stæðunum um allt svæðið í kringum verslunarmiðstöðina. „En á móti þá erum við a tala um nýtingu á stæðum Kringlunnar allan vetrartímann á meðan skóla stendur.“

Þegar hann er spurður út í orð Inga Ólafssonar skólastjóra þess efnis að nemendur Verzlunarskólans séu stór hópur viðskiptavina Kringlunnar segir Sigurjón að Kringlan sé nú þegar að bjóða þeim stæðin sem eru vestan megin við verslunarmiðstöðina.

Kúnni stoppar í Kringlunni í 50 mínútur

„Það er enginn ágreiningur um það. Kúnni í Kringlunni stoppar frá svona 49 og upp í 55 mínútur í húsinu. Það er sá tími sem hver og einn bíll teppir stæði. Þegar þú ert með nemendur sem koma klukkan átta á morgnanna og fara kannski eitt tvö þrjú frá þá ertu með það stæði algjörlega undirlagt allan þann tíma,“ segir Sigurjón.

Kringlan dyggur stuðningsaðili félagsstarfs nemenda

Hann segir Kringluna ávallt hafa átt gott samstarf við nemendur skólans. Kringlan sé dyggur stuðningsaðili félagsstarfs nemendanna. „Við erum í góðu samstarfi við þá en hvort menn þurfi að labba einhverjum hundrað skrefum meira eða minna þurrum fótum í gegnum húsið. Það er ekkert ægilega mikið á fólk lagt. En þá hefur maður heyrt nemendur segja þá þurfum við að mæta fimm mínútum fyrr og eitthvað slíkt. Það er ekki verið að loka neinum dyrum á fólkið. Við bendum nemendum einungis á að vera vestan megin við húsið þar sem þeim er frjálst að nýta stæði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×