Erlent

Segir mögulegt að Ísraelsmenn hafi gerst sekir um stríðglæpi

Atli Ísleifsson skrifar
Navi Pillay, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði Ísraelsher ekki hafa gert nægilega mikið til að verja öryggi óbreyttra borgara.
Navi Pillay, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði Ísraelsher ekki hafa gert nægilega mikið til að verja öryggi óbreyttra borgara. Vísir/AFP
Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt hernaðaraðgerðir Ísraela á Gazaströndinni og segir möguleika á að stríðsglæpir hafi þar verið framdir.

Navi Pillay sagði Ísraelsher ekki hafa gert nægilega mikið til að verja öryggi óbreyttra borgara. Hún fordæmdi jafnframt Hamas-samtökin fyrir að gera ekki greinarmun á hermönnum og óbreyttum borgurum í árársum sínum.

Ísraelsher hóf árásir sínar á Gaza þann 8. júlí, að sögn með það að markmiði að stöðva eldflaugaárásir Hamas-liða á Ísrael. „Það lítur út fyrir að það séu miklar líkur á að alþjóðalög hafi verið brotin upp að því marki að það jafnist á við stríðsglæpi,“ sagði Pillay.

Ísraelsstjórn sakar hins vegar Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna um að vera hlutdrægt í afstöðu sinni og er ólíklegt til að vinna með ráðinu, að sögn fréttaritara BBC. Tzipi Livni, dómsmálaráðherra Ísraels, segir ráðið vera andsnúið Ísrael.

Að minnsta kosti 649 Palestínumenn og 31 Ísraelsmaður hafa látið lífið í árásum síðustu daga. Sameinuðu þjóðirnar segja 74 prósent þeirra Palestínumanna sem fallið hafa verið óbreytta borgara.

„Óbreyttir borgarar á Gaza eru hvergi óhultir þar sem Ísraelsher hefur nú skilgreint 44 prósent landsvæðisins sem hættusvæði,“ að sögn talsmanns mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×