Innlent

Segir miklar líkur á stórum skjálfta á Reykjanesi innan 10 ára

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að búast megi við fleiri skjálftum.
Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur segir að búast megi við fleiri skjálftum. Vísir/eyþór
„Líkurnar á sterkum skjálfta á næstu 10 árum eru mjög háar, það er bara það sem við höfum búið við hingað til,“ sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í viðtali á Útvarpi Sögu í gærmorgun.

Töluverð skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga og nágrenni að undanförnu og hefur Grindavík.net eftir Páli að spennuástandið í jarðskorpunni geti orðið óstöðugra í framhaldinu. Greining Veðurstofunnar á smáskjálftum á svæðinu frá Kleifarvatni og austur í Ölfus bendi þannig til þess að óstöðugleiki geti verið til staðar í jarðskorpunni.

Páll sagði að nú væru í gangi tilraunir til að sýna líkurnar á jarðhræringum eða jarðskjálftum og að þau forrit sem að reikna þetta út núna gefi smá útslag sem aftur gefi tilefni til að minna fólk á.

Það sé ekki beint verið að spá um jarðskjálfta eða vara við yfirvofandi jarðskjálftum, heldur sé verið að nota þetta tilefni til að minna fólk á að það búi nálægt jarðskjálftasvæði og það þarf að vera stöðugt á verði.

„Ég held að það séu engar vísbendingar um eldgosahættu á Reykjanessskaganum núna, þó þetta sé að sjálfsögðu eldgosasvæði og einhvern tímann kemur að því að það verður eldgos þarna, það er óhjákvæmilegt,“ sagði Páll.

Langtímamælingar á jarðskorpuhreyfingum gæfu þó til kynna að mögulega sé talsverð spenna sem myndað geti stóran jarðskjálfta.

Almannavarnir  hafa sagt vísbendingar um spennu í jarðskorpunni á Bláfjalla- og Krýsuvíkursvæðinu sem framkallað geti skjálfta allt að 6,5 stigum.  

Skjálfti upp á fjögur stig sem varð fyrir um fjórum vikum með upptök við Kleifarvatn er sá stærsti í aukinni skjálftavirkni sem vísindamenn Veðurstofunnar greina.

Búast má við því að áhrif jarðskjálfti af stærðinni 6,5 í nálægum byggðum (höfuðborgarsvæðinu, Grindavík, Þorlákshöfn, Hveragerði og Reykjanesbæ) verði þannig að allir finni jarðskjálftann, margir verði skelkaðir og jafnvel hlaupi út úr húsum. Þung húsgögn gætu hreyfst og múrhúðun sprungið af veggjum á stöku stað.  Annars er ekki að búast við miklu tjóni á vel byggðum húsum. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×