Innlent

Segir lítinn brag að gagnrýni Frosta

Una Sighvatsdóttir skrifar
Alþingi veitti fjármálaráðuneytinu ríflega tveggja milljarða króna heimild á fjáraukalögum til kaupa á hlut í Innviðafjárfestingabanka Asíu. Innan stjórnarliðsins ríkir hinsvegar ekki einhugur um þessa ákvörðun.

Bjarni Benediktsson er nú um helgina viðstaddur stofnfund bankans í Kína eins og fréttastofa greindi frá í en Frosti Sigurjónsson formaður efnahags- og viðskiptanefndar gagnrýndi för ráðherrans og þá ákvörðun að skuldbinda ríkissjóð þótt ávinningur Íslands sé mjög óljós.

Varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar er ekki á sama máli. Hann segir að bankinn sé hluti af þróunarsamvinnu vestrænna ríkja í Asíu og það auki möguleika íslenskra fyrirtækja að hasla sér völl á svæðinu.

Mikið fyrir lítið

„Þetta er lág fjárhæð sem komin er og verður kannski 460 milljónir á næstu fimm árum. Þótt skuldbindingin geti verið allt að 2,3 milljarðar þá er ólíklegt að það verði meira en þessar 460 milljónir, þannig að það getur verið til mikils að vinna fyrir lítinn pening."

Alþingi hefur ekki afgreitt þingsályktunartillögu um fullgildingu stofnsamnings bankans, en Brynjar segir það í raun bara formsatriði enda hafi atriði hans legið fyrir þegar fjárheimildin var samþykkt, og þar við sitji.

„Þessar samþykktir lágu fyrir þegar fjáraukalögin voru samþykkt, þannig að ef menn vildu fara í einhverja umræðu út af því þá gátu menn gert það. En það var ekki gert og í raun og veru óþarft að vera með þessa þingsályktunartillögu yfir höfuð. Ráðherra gat bara gert þetta með hliðsjón af þeim skuldbindingum sem Ísland samþykkti í þessu samhengi."



Stjórnarliðar eigi ekki að greiða ekki atkvæði gegn meirihlutanum


Hann býst við að þessi ágreiningur í stjórnarliðinu verði auðleystur en gagnrýnir Frosta fyrir framgöngu hans.

„Við erum auðvitað að ákveða fjárútgjöld á hverju ári í hin og þessi málefni sem ekki allir eru sammála um. Ég tel hinsvegar mikilvægt að þeir sem ætla að standa að stjórnarmeirihluta að þeir greiði atkvæði með eða sitji ekki hjá, eða greiði atkvæði á móti einstökum útgjaldaliðum. Mér finnst ekki mikill bragur á því og ekki mikill bragur að því að gera það á fésbókarsíðu í stað þess að ræða bara við ráðherra sjálfan."

Hann bætir við að mönnum sé vissulega frjálst að hafa skoðanir á öllu. „Ég hef skoðanir á ýmsu í útgjöldum ríkisins sem ég er ekki sáttur við, en ég stend að þessum stjórnarmeirihluta og greiði ekki atkvæði gegn einstaka liðum þó ég sé ekki sáttur við þá.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×