Erlent

Segir lekana vera hinn raunverulega skandal

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir „hinn raunverulega skandal“ vera hve mikið af upplýsingum lekur til fjölmiðla í Washington DC. Ekki samskipti og möguleg tengsl starfsmanna Trump við yfirvöld í Rússlandi.

Í fjölda tísta í dag sagði forsetinn að tilgangurinn með fréttaflutningi um afsögn Michael Flynn og rannsókn á tengslum hans og yfirvalda í Rússlandi, vera að hylma yfir „hin fjölmörgu mistök“ sem Hillary Clinton gerði í kosningabaráttunni í fyrra.

Trump sagði leyniþjónustusamfélag Bandaríkjanna vera að færa New York Times og Washington Post upplýsingar á ólöglegan hátt. Þá spurði hann hvort að það væru starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna og CIA sem stæðu fyrir lekunum.

„Raunverulegi skandallinn hér er að leyniþjónusturnar eru að dreifa leynilegum upplýsingum eins og nammi. Mjög ó-Amerískt!“ sagði Trump meðal annars.

Hann byrjaði tístin í dag þó á því að segja að „falsfrétta-miðlarnir“ væru að ganga af göflunum með samsæriskenningar og blindu hatri. Ómögulegt væri að horfa á MSNBC og CNN, en Fox and Friends væri þó frábært.

New York Times segir upptökur símtala og önnur gögn sína að starfsmenn forsetaframboðs Trump og aðrir samstarfsmenn hans hafi verið í ítrekuðum samskiptum við starfsmenn rússnesku leyniþjónustunnar á meðan á kosningabaráttunni stóð í fyrra. Það hafa þeir eftir fjórum heimildarmönnum sem starfa eða störfuðu innan leyniþjónustugeirans í Bandaríkjunum.

Heimildarmenn NYT segjast þó ekki hafa séð vísbendingar um beint samráð Trump-liða við Rússa um tölvuárásir og aðgerðir Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar.

Alríkislögregla Bandaríkjanna, FBI, hefur þessi símtöl og aðrar upplýsingar til skoðunar vegna rannsóknar á tengslum Trump-liða og Rússa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×