Innlent

Segir Laugarneskirkjumálið hafa haft áhrif á úrsagnir

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Alls gengu 364 fleiri úr þjóðkirkjunni en í hana á síðustu þremur mánuðum. Aftur á móti gengu 87 fleiri í fríkirkjurnar en úr þeim og 264 fleiri í önnur trúfélög en úr þeim á tímabilinu.

Þetta kemur fram í yfirliti Þjóðskrár Íslands sem tekur ársfjórðungslega saman tölur um breytingar á skráningum einstaklinga í þjóðskrá úr einu trú- og/eða lífsskoðunarfélagi í annað.

Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti og staðgengill Biskups Íslands segir fækkunina vera áhyggjuefni fyrir Þjóðkirkjuna.

„Það er nú þannig að við verðum að játa að við vitum ekki mikið hver orsökin er. Við höfum séð á undanförnum árum verulega fækkun vil ég segja og það er mikið áhyggjuefni fyrir okku. Við söknum allra þeirra sem fara en við vitum allt of lítið hvert það er að fara,“ segir hann.

„Ef ég segi bara beint út frá mér þá finnst mér það skipta máli hvort að fólk tekur afstöðu til þess að fara yfir í aðrar kristnar kirkjudeildir. Það eru fjölbreittar áherslur innan kristninnar. Það getur verið að menn hafi séð að þeir eigi betur heima þar. Það gæti líka verið að menn átti sig á því að þeir trúi ekki neinu og segi sig alveg úr og svo líka vegna þess að það sé eitthvað sem þeim mislíkar hjá þjóðkirkjunni og það er það sem við höfum áhuga á að vita hvað það er,“ segir Kristján.

Fyrir skemstu opnuðu prestar í Laugarneskirkju dyrnar sínar fyrir hælisleitendum sem voru svo færðir úr landi í lögreglufylgd. Kristján Valur telur að mál af þeim toga sem komi upp í umræðunni hafi áhrif á félagafjölda í kirkjunni.

„Ég er alveg viss um það að öll mál sem eru umdeild og kirkjan tengist hljóti að leiða til þess að einhverjir segi sig úr kirkjunni. Skemst að minnast umræðunnar um afstöðunnar til samkynhneigðar, þá var gríðarlega mikið um úrsagnir á þeim tíma,“ segir hann.

„Málefni sem eru ofarlega á baugi og kirkjan tekur þátt í og eru umdeild leiðir alltaf að því að einhverjir segi sig frá henni. Svo gæti það líka verið að einhverjir gangi í hana. Ég tel það alveg víst að það hafi haft áhrif,“ segir Kristján.


Tengdar fréttir

Fækkaði um tæplega 400 í þjóðkirkjunni síðustu þrjá mánuði

Á síðustu þremur mánuðum hafa 200 skráð sig í þjóðkirkjuna en 564 úr henni. Fækkað hefur um 364 á tímabilinu. Fleiri skrá sig í önnur trúar- og lífsskoðunarfélög en úr þeim. Þróunin hefur verið svipuð ef borið er saman við síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×