Innlent

Segir konur fá verri meðferð við hjartaáfalli en karlar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir.
Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir. VÍSIR/DANÍEL
Konur eru ólíklegri en karlar á sama aldri til þess að upplifa brjóstverk sem upphafseinkenni hjartaáfalls. Þetta kann að leiða til þess að töf verður á greiningu. Horfur kvenna sem fá hjartaáfall eru almennt verri en karla á sama aldri.

Þetta kom fram í rannsókn sem gerð var á árabilinu 1994-2006 og voru niðurstöður rannsóknarinnar kynntar árið 2012. Sambærileg rannsókn hefur ekki verið gerð nýlega. Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir, segir lítið hafa breyst í þessum efnum og telur fræðslu um einkenni hjartaáfalls nauðsynlega.

„Konur fá ekki alltaf þessi hefðbundnu einkenni og oft getur verið erfiðara að átta sig á þeim. Konur átta sig oft ekki á því hvað er í gangi og leita því síður til læknis.“

Axel segir einkennin oft mistúlkuð en bendir á að erfiðara sé að greina hjartaáfall ef sjúklingurinn er ekki með brjóstverk og því líklegra að töf verði á greiningu hjá konum. Slík töf getur haft veruleg áhrif á batahorfur. Líklegt er að meðferðartöf geti leitt til stærra hjartavöðvadreps meðal kvennanna og skýri hvers vegna þeim farnaðist ver.

Þau einkenni sem konur upplifa, sem ekki fá brjóstverk, eru mæði, magnleysi, ógleði, uppköst, verkir í kjálka og á milli herðablaða. Um 42% kvenna lýstu ekki brjóstverk við komu en 31% karla. Um 15% kvenna með hjartaáfall létust í sjúkrahúslegunni og um 10% karla. Axel greinir frá þessu á heimasíðu sinni.

„Rannsóknir sýna að konur hræðast mest krabbamein, og þá einna helst brjóstakrabbamein, en staðreyndin er sú að það eru sex sinnum meiri líkur á hjartasjúkdómum.“

Axel bendir á samtökin GoRed sem hafa það að markmiði að vekja athygli á hjartasjúkdómum kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×