Innlent

Segir koma til greina að notast við ofanflóðasjóð

Samúel Karl Ólason skrifar
„Það er alltaf öðruvísi að sjá hlutina í eigin persónu eða heyra lýsingar eða sjá myndir. Menn eru reyndar búnir að vinna ótrúlegt þrekvirki nú þegar í að þrífa bæinn, þrífa göturnar, dæla upp úr húsum og svo framvegis. En það er engu að síður mjög sláandi að sjá hve mikill kraftur hefur leist úr læðingi þarna og sérstaklega áhrifin á heimili fólks,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Sigmundur var á Siglufirði í gær og í fyrradag, þar sem flóð og aurskriður ullu miklum skemmdum í síðustu viku. Hann sagði skemmdir á gatnakerfi, ræsum og slíku vera eitthvað sem tiltölulega auðvelt væri að gera við, en tjónið á heimilunum gæti verið tilfinningalegt ekki síður en peningalegt.

„Þar skiptir öllu máli og allir sem ég hitti voru sammála, að íbúarnir höfðu staðið alveg einstaklega vel saman. Strax og ljóst var í hvað stefndi þá voru allir boðnir og búnir til að aðstoða þá sem lentu verst í þessu og þannig hafa menn komist í gegnum þetta.“

Sigmundur sagðist hafa farið inn á nokkur heimili sem hafi orðið fyrir skemmdum og sums staðar hafi orðið varanlegar skemmdir á húsum. Hann sagði að mestar skemmdirnar falli undir viðlagatryggingu.

„Tjón sem að fellur utan viðlagatryggingar er líklega minna en að menn óttuðust í fyrstu, en það er engu að síður eitthvað sem þarf að huga að. Hvernig megi bæta slíkt.“

Hann sagði að unnið yrði að því með heimamönnum að finna út úr hvernig takast eigi við þann kostnað.

„Ég hef nefnt sem dæmi að ofanflóðasjóður gæti hugsanlega, það er eitt af því sem verið er að skoða, komið þarna að málum. Þetta er auðvitað eitthvað sem að varðar starfssvið hans. Að koma í veg fyrir tjón af völdum svona flóða. Hugsanlega má nýta þá möguleika eitthvað.“


Tengdar fréttir

Eitt stærsta aurflóð sem fólk man eftir

Gríðarmikil úrkoma sólarhringinn fyrir flóðin á Siglufirði olli því að þúsundir rúmmetra skriðu fram. Sjö skriður loka veginum milli Siglufjarðar og Fljóta og nokkra daga tekur að hreinsa fráveitukerfi bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×