Erlent

Segir kjarnorkukapphlaup Kínverja glapræði

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Áform kínverskra yfirvalda um fjölgun kjarnorkuvera eru harðlega gagnrýnd af þarlendum vísindamanni sem sakar stjórnvöld um að huga ekki að öryggisatriðum.

Eftir Fukushima-slysið í Japan árið 2011 lögðu kínversk stjórnvöld bann við nýjum kjarnorkuverum en nú er áformað að hefja framkvæmdir á nýjum kjarnorkuverum í innsveitum Kína. Eðlisfræðingurinn He Zuoxiou gagnrýnir þessi áform harðlega en breska dagblaðið The Guardian hefur eftir honum að ef álíka slys verður líkt og eftir hamfarirnar í Japan árið 2011 þá gæti leki frá kjarnorkuverum í innsveitum landsins mengað ár sem skaffa milljónum neysluvatn.

Kínverjar lögðu bann á ný kjarnorkuver árið 2011 til að fara yfir öryggisverkferla en nú í mars var ákveðið að leyfa byggingu tveggja nýrra kjarnorkuvera en það er liður í áætlun Kínverjar um að verða stærsti notandi kjarnorku heims árið 2030.

He, sem starfaði við kjarnavopnaþróun Kínverja, sagði þessi áform stjórnvalda illa ígrunduð og lykta af fljótfærni því ekki hefði verið tryggt að öryggisverkferlar væru með þeim hætti að afstýra megi hræðilegu slysi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×