Erlent

Segir Kína heyja „kalt stríð“ gegn Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínverskir hermenn við æfingu.
Kínverskir hermenn við æfingu. Vísir/EPA
Háttsettur starfsmaður CIA segir Kína heyja kalt stríð gegn Bandaríkjunum, með því markmiði að velta ríkinu úr sessi sem helsta veldi heimsins. Michael Collins, einn yfirmanna Austurasíudeildar CIA segir Kína ekki vilja hefðbundið stríð gegn Bandaríkjunum og því beiti þeir öðrum leiðum til að grafa undan Bandaríkjunum.

„Ég myndi segja að í rauninni séu þeir að heyja kalt stríð gegn okkur. Ekki kalt stríð eins og við sáum á tíma kalda stríðsins sjálfs en kalt stríð þó,“ sagði Collins á öryggisráðstefnu í Bandaríkjunum í gær.



Kínverjar eru með fjölmennasta her heims og næst stærsta efnahaginn, á eftir Bandaríkjunum. Þó Kína hafi staðið í umfangsmikill uppbyggingu á herafla sínum eru Bandaríkin eru enn með hernaðaryfirráð á heimsvísu.

Á undanförnum mánuðum hefur samband ríkjanna beðið hnekki og eiga þau nú í stækkandi viðskiptastríði.

Þá hafa Bandaríkin og önnur ríki heimsins gagnrýnt Kína harðlega fyrir ólöglegt tilkall þeirra til nánast alls Suður-Kínahafs. Þar hafa Kínverjar byggt upp heilu eyjarnar og komið vopnum og hernaðarmannvirkjum fyrir á þeim.

Hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna gáfu í byrjun árs út nýja varnarstefnu ríkisins og beinist hún að mestu að því að sporna gegn áhrifum Kína og Rússlands.

Sjá einnig: Snúa sér að Kína og Rússlandi



Þá sagði Elbridge Colby, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að verulega hefði dregið úr hernaðaryfirburðum ríkisins gagnvart Kína.

Christopher Wray, yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, sagði fyrr í vikunni, á sömu ráðstefnu og Collins, að Bandaríkjunum stæði mest ógn af Kína á heimsvísu. Þeir stæðu bæði í hefðbundnum njósnum auk þess að standa í efnahagslegum njósnum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×