Innlent

Segir kerfið mjög seinvirkt í tálmunarmálun

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Dæmi eru um að það hafi tekið kerfið allt að fjögur ár að leiða til lykta mál þar sem annað foreldri hefur meinað hinu að umgangast barn sitt. Sérfræðingur í barnarétti segir kerfið vera mjög seinvirkt og að stytta þurfi málsmeðferðartímann. Breyta eigi lögum á þann hátt að tálmun á umgengni verði skilgreind sem andlegt ofbeldi.

Ólafur Hand, faðir ellefu ára stelpu, sagði sögu sína í fréttum Stöðvar tvö í gær. Fljótlega eftir að dóttir hans fæddist slitu hann og móðir hennar samvistum. Að sögn Ólafs byrjaði móðir stelpunnar fljótlega að tálma umgengni hans við dóttur sína. Kerfið sem taki við foreldrum sem verði fyrir slíkri tálmun sé gamaldags og gallað.

Í barnalögum er kveðið á um umgengnisrétt en hann felur í sér að barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Í lögunum er einnig kveðið á um að slíka umgengni megi þvinga fram með dagsektum tálmi sá sem hefur forsjá barns hinu foreldrinu að neyta hans.

Sjá einnig: Hefur barist fyrir dóttur sinni í 10 ár

María Júlía Rúnarsdóttir, héraðsdómslögmaður og sérfræðingur í barnarétti, skrifaði meistararitgerð um tálmun á umgengni. Hún segir kerfið sem tekur við foreldrum sem telja sig hafa orðið fyrir slíkri tálmun mjög seinvirkt en þessi mál eru á borði sýslumanna.

„Ég þekki dæmi þar sem að mál sem hefur komið hingað til mín þar sem þetta ferli hefur tekið fjögur ár. Frá því að foreldri fer að leita réttar síns, réttar barnsins í rauninni, þar til að niðurstaða dómstóla lá fyrir,“ segir María.

Hún þekki dæmi þess að afleiðingin verði algjört tengslarof milli barns og þess foreldris sem verður fyrir tálmun. Kerfið í dag bjóði ekki upp á neina aðstoð fyrir börn og foreldra í þessari stöðu.

„Það er hreinlega ekki boðlegt að barn þurfi að búa við það að fá ekki að hitta annað foreldri sitt í marga mánuði, jafnvel svo árum skiptir, á meðan verið er að finna út úr svona máli. Niðurstaðan er oftar en ekki sú að umgengi samrýmist raunverulega hagsmunum barnsis en það verði gífurlegt tengslarof á þessum tíma meðan málið er til meðferðar. Það er mjög brýnt að það sé tekið á þessi og málsmeðferðartími styttur,“ segir María.

María segir slíkt tengslarof geta haft óafturkræfar afleiðingar til framtíðar. Þegar umgengni sé tálmað þvert á ákvarðanir fagaðila þurfi að taka á því eins og öðrum ofbeldismálum.

„Þegar að sérfræðingar eru búnir að segja, jafnvel oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, að það samrýmist hagsmunum þessa barns að vera í reglulegri umgengni við hitt foreldri sitt, þegar þessar aðstæður skapast þá erum við að tala um tálmun á umgengni og það er í mínum huga andlegt ofbeldi gagnvart barni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×