Innlent

Segir kaffihúsaeigendur ekki treysta sér til að leyfa gæludýr

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Stjórnarmaður í Félagi ábyrgra hundaeigenda segir strangar kröfur heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur aftra því að veitingastaðir geti með góðu móti leyft gæludýr. Þannig sé reglugerð um málið túlkuð með mun strangari hætti en tilefni sé til.

Það var eitt af síðustu embættisverkum Bjartar Ólafsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, að skrifa undir reglugerðarbreytingu, sem gerði eigendum veitinga- og kaffihúsa kleift að heimila loðna ferfætlinga innandyra í fylgd með mannfólki. Svo virðist hins vegar sem reglugerðin hafi ekki skilað tilætluðum árangri, en félag ábyrgra hundaeigenda hefur kvartað sérstaklega yfir ströngum skilyrðum af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.

„Það virðist vera sem svo að það sé í rauninni varla til sá staður í Reykjavík sem uppfyllir þessi skilyrði,“ segir Freyja Kristinsdóttir, dýralæknir og stjórnarmaður í Félagi ábyrgra hundaeigenda.

Mega ekki vera í sama rými og matvara

Þannig segir m.a. í breytingarreglugerðinni sem undirrituð var að tryggja skuli að hundar og kettir séu einungis í veitingasölum veitingastaðar og ekki þar sem matvæli eru tilreidd, meðhöndluð eða geymd. Orðalagið um sama rými telur félagið að sé túlkað alltof víðtækt. Þannig nefnir Freyja dæmi um að gerð hafi verið athugasemd við geymslu drykkjarfanga bak við barborð í sama rými og leyfa átti hunda. Hún segir marga staði hafa lýst yfir áhuga á að leyfa gæludýr, sem hafi hins vegar horfið frá því af ótta við að missa starfsleyfið.

„Svo ég viti til eru ekki neinir sjúkdómir sem eru að fara að smitast milli hunda og manna sem eru loftbornir svo þetta eru í raun algjörlega öfgafullar aðgerðir,“ segir Freyja.

Í skriflegu svari frá heilbrigðiseftirliti til fréttastofu segir hins vegar að sú túlkun sem lýst er sé í samræmi við orðanna hljóðan í reglugerðinni. Einnig kemur þó fram að óskað hafi verið liðsinnis Matvælastofnunar við að kanna hvernig ákvæðum samsvarandi Evrópureglugerðar sé beitt í framkvæmd í nágrannalöndum okkar.

Freyja segir félagsmenn hafa óskað eftir fundum með heilbrigðiseftirliti og heilbrigðisnefnd borgarinnar, en ekki haft erindi sem erfiði. Hún telur aftur á móti að vandkvæðin megi að miklu leyti rekja til viðhorfa sem enn ríki til hundahalds hér á landi.

„Það náttúrulega eru rótgrónir hundafordómar á Íslandi. Þó það sé mikið búið að breytast undanfarin ár þá lifir þetta ennþá í alls konar stofnunum,“ segir Freyja að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×