Innlent

Segir íslenska neytendur ekki hafa sama verðskyn og aðrar þjóðir

Hagfræðingurinn Ólafur Arnarsson, var í gær kjörinn formaður Neytendasamtakanna og tekur hann við af Jóhannesi Gunnarssyni sem hefur verið starfandi formaður samtakanna nánast samfleytt frá 1990 eða í 26 ár. Ólafur segist vilja gera neytendasamtökin sýnilegri og aðgengilegri.

„Það má segja að grunnatriðið í neytendavernd sé upplýstir neytendur. Það eru neytendur sem eru með verðvitund og gæðavitund og við höfum í dag allt aðrar leiðir til þess að miðla upplýsingum til fólks en voru fyrir 60 árum þegar að Neytendasamtökin voru stofnuð,“ segir Ólafur.

Hann hefur í hyggju að þróa svokallað neytendapp, forrit í snjallsíma sem gerir neytandanum kleift að fá verðsamanburð og meðmæli frá öðrum neytendum á rauntíma á meðan hann verslar. Í þessu skyni vonast hann meðal annars eftir samstarfi við Alþýðusamband Íslands sem gerir reglulega verðkannanir á matarkörfunni til að miðla þeim upplýsingum í gegnum appið.

„Þá getur þú bara áttað þig á því, er verið að okra á þér? Ætti ég ef til vill bara að hætta að versla hér og fara í einhverja aðra búð og venja komur mínar þangað. Ég held að þetta efli samkeppni á verslunarmarkaði.“

Þá muni Neytendasamtökin sjálf vinna eigin úttektir og miðla upplýsingum um fleiri vörur og þjónustuflokka. Þar á meðal fjármálaþjónustur. Ólafur telur þörf á að virkja íslenska neytendur til aukinnar meðvitundar.

„Við Íslendingar erum náttúrulega dálítið sérstakir. Við höfum búið við meiri verðbólgu og óstöðugleika en aðrar þjóðir í gegnum áratugina. Þó að ástandið sé tiltölulega stöðugt akkúrat núna um þessar mundir. Ég held að það hafi laskað okkar verðskyn. Við höfum ekki sama verðskyn og neytendur annars staðar. Ég hef búið í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi. Neytendur eru meðvitaðri þar,“ segir Ólafur.

Hann segir ýmis stór neytendamál sem samtökin þurfi að beita sér fyrir.

„Neytendasamtökin eru mjög hörð gegn verðtryggingu á neytendalánum. Það hefur verið freklega gengið fram hjá neytendum, til dæmis í sambandi við búvörulög og búvörusamninga. Þetta eru náttúrulega gríðarlega stór mál. Við höfum barist í þeim málum og við munu halda áfram að berjast. Það er markmið hjá mér að fjölga félagsmönnum og efla samtökin.“


Tengdar fréttir

Smala í formannskjöri Neytendasamtakanna

Formaður Neytendasamtakanna segir að lög samtakanna þarfnist mikilla endurbóta. Val uppstillingarnefndar í formannskjöri er gagnrýnt. Þrefalt fleiri hafa boðað komu sína á aðalfundinn um næstu helgi heldur en á fundinn í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×