Innlent

Segir íslensk lög hella olíu á eld trúarlegs ágreinings

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Helgi Hrafn Gunnarsson.
Helgi Hrafn Gunnarsson. Vísir/Anton
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata kom í ræðustól Alþingis í dag og ræddi stöðu trúmála hér á landi. Hann sagði að það yrði hreinlega að aðskilja ríki og kirkju þar sem trúarlegur ágreiningu á Íslandi fengi næringu úr íslenskum lögum og íslenskri stjórnarskrá. Orðræðan fengi „olíu á sinn eld með orðræðu úr íslenskum lögum,“ eins og þingmaðurinn orðaði það.

Vísaði Helgi til að mynda í ákvæði í lögum um að sveitarfélög ættu að gefa lóðir undir kirkjur. Út frá því ákvæði kæmi ágreiningur um hvort þetta ætti einnig við um moskur. Þá yrði líka ágreiningur um ákvæði stjórnarskrá um þjóðkirkjuna sem og um ákvæði stjórnarskrár um jafnræði.

„Það er þannig að á Íslandi og víðar í heiminum á sér stað mikill trúarlegur ágreiningur af ýmsum ástæðum. Trúmál eiga ekki heima með stjórnmálum. Það er ekki eðlilegt að íslenska ríkið sé með sérstök trúarbrögð og sérstaka trúarstofnun sem ríkið ætlar að vernda og styðja. Það er ekki eðlilegt fyrirkomulag þar sem jafnræði fyrir lögum er raunverulega virt,“ sagði Helgi.

Þá sagði hann það „algjörlega ótækt að sá hryllingur sem getur átt sér stað úr trúarlegum ágreiningi fái næringu úr íslenskum lögum og íslenskri stjórnarskrá.“ Því væri nauðsynlegt að aðskilja ríki og kirkju, en ekki vegna þess að kristin trú væri svona eða hinsegin, heldur vegna þess hér væri lýðveldi og hér eigi jafnræði að ríkja fyrir lögum.

„Það er lýðræði virðulegur forseti,“ sagði Helgi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×