Erlent

Segir íraska herinn þurfa aukin stuðning

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá þjálfun íraskra hermanna.
Frá þjálfun íraskra hermanna. Vísir/AFP
Haider al-Abadi, forsætisráðherra Írak, segir her landsins þurfa aukin stuðning í baráttunni gegn Íslamska ríkinu. Bandaríki og bandamenn þeirra hafa nú gert loftárásir gegn samtökunum í fimm mánuði og íraski herinn hefur ekki unnið afgerandi sigur gegn ISIS.

Forsætisráðherrann lofaði loftárásirnar í samtali við AP fréttaveituna, en hann sagði alþjóðasamfélagið hafa dregið úr stuðningi sínum. Hermennirnir þurfi þjálfun og vopn til að endurheimta stórar borgir úr höndum ISIS.

„Við stöndum einir í þessu, að mesta leyti. Það er mikið um loforð, en lítið um efndir.“

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Írak.Vísir/AFP
Bandaríkin vörðu milljörðum dala í að þjálfa sem og að vopnbúa íraska herinn í þau átta ár sem bandarískir hermenn voru í Írak. Þeir veittu vígamönnum ISIS þó nánast enga mótspyrnu í sumar, þegar samtökin hertóku stór svæði í Norður-Írak og þar á meðal næst stærstu borg landsins, Mosul.

Fyrrverandi forsætisráðherra landsins, Nouri al-Maliki var að mestu kennt um afhroð hersins. Al-Abadi tók við stjórnvölum í september og hefur hann síðan fengið minnihlutahópa í Írak til aðstoðar við sig og reynt að byggja herinn aftur upp.

„Við viljum fá hraðari þjálfun og fleiri vopn. Við vinnum markvisst að því að finna leiðir til að verða okkur sjálfir út um vopn, en stöndum nánast einir í því. Við búumst við meiru.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×