Innlent

Segir innanlandsflug vera lífæð við landsbyggðina

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Myndvinnsla/Garðar
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segir innanlandsflug vera lífæð við þau byggðarfélög sem eru í mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingkona Vinstri grænna segir innanlandsflug mikilvægt til að viðhalda byggð í landinu.

Ólína tók til máls undir liðnum Störf þingsins á Alþingi í dag en mikið hefur verið rætt undanfarna daga um há flugfargjöld. Þá var greint frá því í Fréttablaðinu í dag að flugfarþegum í innanlandsflugi hefur fækkað á meðan ferðamönnum fjölgar gríðarlega. 

„Mér finnst tímabært að stjórnvöld horfist í augu við það að innanlandsflugið er í reynd almenningssamgöngur landsbyggðarinnar, ekki síst í ljósi þess að vegir landsins bera ekki lengur alla þá þungaflutninga og umferð sem fylgir sívaxandi ferðamannastraumi,” sagði Ólína

„Hins vegar er staðan sú að innanlandsflugið er allt of dýr ferðakostur til þess að Íslendingar geti nýtt sér það í þeim mæli sem þyrfti. Þess vegna hefur flugfarþegum fækkað í innanlandsflugi um fjórðung á níu árum á sama tíma og ferðamannafjöldinn hefur þrefaldast. Hins vegar er sannleikurinn sá að flugið er lífæðin við þau byggðarlög sem eru í mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík er miðstöð stjórnsýslu og mikils hluta þjónustu við landsbyggðina, ekki síst heilbrigðisþjónustu, og greiðar samgöngur þarna á milli verða að vera til staðar.“

Ólína sagði að væri innanlandsflug á viðráðanlegu verði fyrir almenning væri það gjörbylting í búsetumöguleikum fólks á landsbyggðinni og fyrir uppbyggingu almennings.

„Það er verðugt verkefni fyrir stjórnvöld, sérstaklega í ljósi þess mikla álags sem er á vegum landsins, að leita leiða til að efla þennan þátt í samgöngum okkar, m.a. með því að hafa áhrif til þess að halda verði flugfargjalda niðri.“

Snýst um að viðhalda byggð í landinu

Bjarkey tók í sama streng og Ólína og sagðist hafa efasemdir um fyrirætlanir stjórnvalda.

„Ég hef haft efasemdir um fyrirætlanir núverandi stjórnvalda sem lögðu þó í það að stofna nefnd um þetta verkefni, þ.e. hvernig hægt væri að lækka gjöld í innanlandsflugi. Það er langt síðan þeirri vinnu var skilað en ekkert hefur gerst. Það kostar í kringum 200 milljónir ef gefinn er eftir virðisaukaskattur af eldsneyti í innanlandsflugi, lægri gjöld á flugvöll og svo framvegis, og þá er hægt að lækka miðaverð, það skiptir máli, um 15–18%.“ sagði Bjarkey.

„Það munar um minna í fluginu innan lands eins og það er dýrt. Þetta snýst bæði um það að viðhalda byggð í landinu, hafa tækifæri til að sinna nýsköpun, sinna fjölskyldu og svo framvegis. Það er ýmislegt sem er undir. Ef við viljum raunverulega hafa byggð í öllu landinu þarf flugið að vera valkostur. Það er alveg á hreinu.“


Tengdar fréttir

Innan­lands­flugið hefur tekið stóra dýfu

Flugfarþegum í innanlandsflugi hefur fækkað á meðan ferðamönnum fjölgar gríðarlega. Bæjarstjóri Vestmannaeyja segir skattlagningu á flugið veikja landsbyggðirnar. Væru sérskattar á flug afnumdir myndi verð lækka um 15%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×