Erlent

Segir helming leiðtoga ISIS hafa verið fellda

Samúel Karl Ólason skrifar
Haider al-Abadi og John Kerry í London í dag.
Haider al-Abadi og John Kerry í London í dag. Vísir/AFP
Loftárásir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra hafa stöðvað framgang vígamanna ISIS samkvæmt John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Í sumum tilfellum hefur orðið viðsnúningur á stöðu samtakanna. John Kerry sagði blaðamönnum í dag að um helmingur leiðtoga ISIS hafi verið felldir frá því að loftárásir hófust í ágúst.

Fulltrúar þeirra 21 ríkis sem koma að baráttunni gegn Íslamska ríkinu komu saman í London í dag, en utanríkisráðherra Bretlands segir bandalagið staðráðið í að brjóta ISIS á bak aftur.

Í bandalaginu eru Bandaríkin, Bretland, Írak, Ástralía, Belgía, Kanada, Danmörk, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Holland, Noregur og Spánn. Þar að auki koma Barein, Egyptaland, Jórdanía, Kúvæt, Katar, Sádi Arabía, Tyrkland og Sameinuðu arabísku furstaveldin að bandalaginu.

Á vef BBC segir að forsætisráðherra Írak, Haider al-Abadi hafi varað við því að verðlækkun olíu hefði dregið úr getu Íraka til að berjast gegn ISIS. Hann þakkaði hinum í bandalaginu fyrir þá þjálfun sem íraski herinn hlýtur, en sagði þá þurfa meiri hjálp varðandi vopn.

Sjá einnig: Segir íraska herinn þurfa aukin stuðning.

Eftir fundinn sagði John Kerry að nærri því tvö þúsund loftárásir hefðu verið gerðar og að hermenn hefðu endurheimt um 700 ferkílómetra frá ISIS. BBC segir að í ágúst hafi verið talið að samtökin stjórnuðu um 91 þúsund ferkílómetrum í Sýrlandi og Írak.

Kerry sagði að meira en sex þúsund vígamenn hafi verið felldir í loftárásunum og að hundruð skriðdrekar og brynvarðir bílar hafi verið eyðilagðir. Þar að auki hafa árásir verið gerðar og olíuvinnslustöðvar ISIS og önnur mikilvæg skotmörk. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×