Innlent

Segir hægt að dreifa mannskap þótt unnið sé í teymi

Sveinn Arnarsson skrifar
Ráðgjafarnir munu styðja kennara, foreldra, skólastjórnendur og sveitarstjórnir um allt land og miðla leiðum til að efla læsi nemenda í leik- og grunnskólum.
Ráðgjafarnir munu styðja kennara, foreldra, skólastjórnendur og sveitarstjórnir um allt land og miðla leiðum til að efla læsi nemenda í leik- og grunnskólum. Fréttablaðið/Valli
Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýnir að fyrirhuguð ráðning tíu ráðgjafa Námsmatsstofnunar vegna læsisverkefnis skuli allar staðsettar á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur falið Námsmatsstofnun að vinna að innleiðingu aðgerða til eflingar læsis og er verkefnið hluti af aðgerðum í framhaldi af Hvítbók um umbætur í menntamálum. Ráðgjafarnir eiga að sinna öllu landinu og vera skólum og sveitarstjórnum til halds og trausts um aðgerðir til að auka læsi skólabarna.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
„Þetta eru störf sem geta verið hvar sem er,“ segir Bjarkey. „Þau þurfa ekki bara að vera í Kópavogi, þar sem aðsetur Námsmatsstofnunar er nú. Við þekkjum það að við getum verið hvar sem er á landinu og hægt er að dreifa mannskap þó menn vinni saman í teymisvinnu. Nú hefur verið reynt að flytja stofnun með manni og mús en ekki gengið og það er stefna stjórnvalda að dreifa störfum jafnt um byggðir landsins. Því tel ég að hægt væri að tengja hluta þessara starfa við miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri þar sem mikil fagþekking er á sviði læsis.“

Gylfi Jón Gylfason, sérfræðingur hjá Námsmatsstofnun, segir ástæður nokkrar fyrir því að öll störfin verði staðsett á höfuðborgarsvæðinu. „Ætlunin er aldrei að hópurinn sé varanlega á einhverjum stað. Hópurinn kemur á staði, kennir fólki ákveðna tækni og fer svo annað. Þannig er hópurinn hugsaður sem teymi og vinnur saman með sameiginlega starfsstöð. Þetta er ekki hugsað sem viðbót sveitarfélaganna sem sérfræðiþjónusta á hverjum stað,“ segir Gylfi Jón.

Gylfi Jón Gylfason Sérfræðingur hjá Námsmatsstofnun
Gylfi segir þann möguleika hafa verið skoðaðan að setja þessi störf niður annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu en fagleg rök og hagræði hafi legið að baki því að setja störfin niður í Kópavogi.

„Væntanleg menntamálastofnun, sem nú er í meðförum þingsins, verður starfrækt í Kópavogi. Einnig búa langflest börn, sem teymið þarf að ná til, hér í kransi höfuðborgarsvæðisins og því er mesta hagræðið að vera með stöðurnar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gylfi Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×