Innlent

Segir fréttaflutning af kynferðisbrotum í Grímsey rangan

Jakob Bjarnar skrifar
Vilhjálmur minnir Björn á að það sé ekki hans hlutverk að fella dóma í fjölmiðlum. Nú er að sjá hvort Björn beygir sig vegna boða lögmannsins.
Vilhjálmur minnir Björn á að það sé ekki hans hlutverk að fella dóma í fjölmiðlum. Nú er að sjá hvort Björn beygir sig vegna boða lögmannsins.
Vilhjálmur Vilhjálmsson lögmaður segir fréttaflutning Björns Þorlákssonar ritstjóra Akureyri Vikublaðs, af kynferðisbrotamáli í Grímsey beinlínis rangan og hann hefur boði Birni uppá að draga hann til baka og biðjast afsökunar.

„Þetta mál er hjá ríkissaksóknara og bíður ákvörðunar þar, hver afdrif málsins verða; hvort það verði fellt niður, sent aftur til rannsóknar eða gefin út ákæra. Ég tel að meintur brotaþoli og þeir sem að henni standa séu með þessari fjölmiðlaherferð, sem er í gangi núna, að reyna að setja pressu á ákæruvaldið í málinu. Sem mun að sjálfsögðu ekki takast,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður í samtali við Vísi.

Hann hefur nú gefið út fréttatilkynningu, sjá neðar, þar sem hann átelur fréttaflutning af máli sem tengist skjólstæðingi hans. Akureyri vikurit greindi í fyrstu frá því að kynferðisbrotamál sem komið hafi upp í eynni reyndist atvinnulífinu þar, sjávarútveginum og kvótatilhögun, erfið. Viku síðar birti Björn svo viðtal sem hann tók við meintan brotaþola, sem sagði frá kynferðisbrotum sem hún mátti sæta.

Og þú hefur þá sett þig í samband við Björn?

„Ritstjóri blaðsins, Björn Þorláksson, hefur móttekið kröfubréf þar sem honum er gefinn kostur á að biðjast afsökunar á hinum ranga fréttaflutningi, draga hann til baka og viðurkenna að hann standist ekki skoðun. Og það sama á við um meintan brotaþola einnig.“

Vilhjálmur bendir á að sakarefnið sé ekki nauðgun, þó það hafi verið nefnt til sögunnar heldur hafi stúlkan kært kynferðislega misnotkun.

Yfirlýsing Vilhjálms

Um meint kynferðisbrot, kvóta og byggð í Grímsey

Þann 15. og 22. janúar 2015, birti Vikublaðið Akureyri, tvær forsíðufréttir um umbjóðanda minn sem er útgerðarmaður í Grímsey, þar sem honum er meðal annars gefið að sök að hafa misnotað 14 ára unglingsstúlku kynferðislega. Í fréttum Vikublaðsins Akureyri er umbjóðandi minn meðal annars kallaður ,,gerandinn” og ,,brotamaðurinn” og fyllyrt að hann eigi ekki afturkvæmt til Grímseyjar. Enginn fyrirvari er gerður við það í fréttum Vikublaðsins Akureyri að umbjóðandi minn hefur hvorki verið ákærður né dæmdur fyrir kynferðisbrot heldur er fullyrt að sakamálið sem um ræðir hafi verið dómtekið. Það er rangt en áður en sakamál er tekið til dóms þarf að gefa út ákæru og málið að hljóta dómsmeðferð.

Umbjóðandinn hefur gefið eina skýrslu hjá lögreglu vegna málsins. Þar neitaði hann alfarið sök. Í frétt Vikublaðsins Akureyri er þess í engu getið enda sá blaðið ekki ástæðu til þess að leita eftir afstöðu umbjóðanda míns til þessara alvarlegu ásakana. Það er vond blaðamennska og í andstöðu við starfsreglur flestra fjölmiðla. Afleiðing er sú að umræddar fréttir Vikublaðsins eru uppfullar af rangfærslum.

Í Vikublaðinu Akureyri er síðan reynt með farsakenndum hætti að gera umbjóðanda minn ábyrgan fyrir því að „Byggð sé að blæða út í Grímsey“ eins og blaðið kallar það, en þar er því haldið fram að hið meinta kynferðisbrot hafi leitt til þess að umbjóðandi minn eigi ekki afturkvæmt til Grímseyjar og því muni hann selja kvóta sem er í eigu fyrirtækisins í hans eigu og fleiri burtu úr eynni. Þessar ævintýralegu rangfærslur hafa síðan aðrir fjölmiðlar, s.s. Vísir.is, Mbl.is og DV.is, étið gagnrýnislaust upp án þess að hafa einu sinni rætt við umbjóðanda minn eða meðeigendur hans í fyrirtækinu sem á kvótann.

Í gær, 26. janúar 2015, birtist síðan grein í Kvennablaðinu eftir brotaþola þar sem brotaþoli heldur því fram að umbj. minn hafi hafi nauðgað henni þegar hún var 14 ára gömul. Þessar nýju upplýsingar segja margt ef ekki allt um trúverðugleika meints brotaþola en málið var kært til lögreglu, rannsakað og sent til ríkissaksóknara til ákvörðunar, án þess að brotaþoli upplýsti um hina meintu nauðgun. Þessi síðari tíma málatilbúnaður brotaþola dæmir sig því sjálfur.

Að gefnu tilefni er síðan rétt að minna á að það er hlutverk dómstóla að kveða upp dóma í sakamálum ekki fjölmiðla.

Reykjavík, 27. janúar 2015,

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×