Erlent

Segir framgöngu ISIS vera klúður heimsins

Samúel Karl Ólason skrifar
Haider al-Abadi í París.
Haider al-Abadi í París. Vísir/EPA
Ráðherrar tuttugu ríkja funda nú í París um hvernig stöðva eigi Íslamska ríkið. Rússland, Íran og Sýrland eiga ekki fulltrúa á fundinum. Forsætisráðherra Írak, Haider al-Abadi segir framgöngu ISIS vera klúður heimsins og einnig að viðskiptaþvinganir gegn Íran og Rússlandi valdi því að Írakar eiga eriftt með að kaupa vopn.

Parísarfundurinn gengur út á að finna leiðir til að herja gegn ISIS og að koma í veg fyrir fjármögnun þeirra. Samtökin hafa undanfarið sótt fram í Írak, þrátt fyrir loftárásir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra gegn ISIS.

Abadi sagði Íraka þurfa á stuðningi alls heimsins til að endurheimta land sitt frá ISIS. Hann sagði að nú væru Írakar ekki að fá mikla hjálp. BBC hefur eftir Abadi að margir tali um að styðja Íraka en lítið sé um efndir.

Hann sagði að stuðningur úr lofti væri ekki nóg og fór fram á að Írakar fengju betri aðgang að njósnagögnum um ISIS. Þar talaði hann um upplýsingar um mannaflutninga þeirra, en ISIS flytja menn núna í smáum hópum vegna loftárásanna.

Þar að auki fór Abadi fram á að alþjóðasamfélagið hjálpaði Írökum að útvega sér vopn. Nefndi hann að viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna Úkraínudeilunnar og Íran vegna kjarnorkuáætlunar þeirra kæmu í veg fyrir að Írakar gætu keypt vopna af löndunum.

„Peningarnir eru bara í bankanum en við getum ekki fengið vopn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×