Viðskipti erlent

Segir enn svigrúm til viðræðna

Samúel Karl Ólason skrifar
Alexis Tsipras vill að Grikkir hafni tilboði lánadrottnanna.
Alexis Tsipras vill að Grikkir hafni tilboði lánadrottnanna. Vísir/EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að engin skref hafi verið stigin í deilu Grikklands og kröfuhafa þeirra. Að öllu óbreyttu eru líkur á því að Grikkland verði gjaldþrota í nótt. Viðræður milli deiluaðila slitnuðu um helgina.

Stjórnvöld í Aþenu tilkynntu þjóðaratkvæðagreiðslu um tilboð frá evrusamstarfsríkjunum, sem fram fer þann 5. júlí. Grikkir báðu um að neyðarhjálpin myndi halda áfram þangað til en þeirri beiðni var hafnað. Tilboð evrusamstarfsins fyrir frekari aðstoð felur í sér miklar aðhaldsaðgerðir í Grikklandi sem ríkisstjórnin sættir sig ekki við.

Jean-Claude Juncker, forsetir framkvæmdastjórnar ESB, hringdi svo í Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, í gærkvöld og kynnti fyrir honum nýtt tilboð, en það rennur út á miðnætti. Enn sem komið er hefur Tsipras ekki svarað.

Raðir hafa myndast við hraðbanka í Grikklandi.Vísir/EPA
Klukkan tíu í kvöld að íslenskum tíma rennur neyðarhjálpin til Grikklands sitt skeið og Grikkir þurfa að greiða rúmlega einn og hálfan milljarð til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, sagði fyrr í dag að þeir myndu ekki greiða lánið.

Ríkissjóður Grikklands skuldaði um 317 milljónir evra í lok ársins 2014, sem er 177 prósent af vergri landsframleiðslu

Sjá einnig: Hvaða þýðingu hefur útganga Grikkja úr myntsamstarfinu?

Bankar í Grikklandi eru lokaðir en langar raðir hafa myndast við hraðbanka í landinu á síðustu dögum. Úttektarhámarkið er 60 evrur og hafa margir farið á hverjum degi til að taka út innistæður sínar.


Tengdar fréttir

Grikkir stefna í þjóðargjaldþrot

Lánadrottnar líta á óvænta boðun til þjóðaratkvæðagreiðslu í Grikklandi sem brotthvarf þeirra frá viðræðum um nýja lánasamninga.

Halda lánalínunni opinni

Grískir bankar eru mjög háðir lánalínum Seðlabanka Evrópu og hafa milljarðar evra verið teknir út úr bönkum í Grikklandi á síðustu dögum og vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×